Fannar og félagar í KR b lutu í lægra haldi fyrir Stólunum
Tindastólsmenn gerðu aldrei þessu vant góða ferð í DHL-höllina um helgina. Andstæðingurinn var því miður B-lið KR en leikurinn var liður í Maltbikarnum. Sigurinn var öruggur en sérstaklega léku Stólarnir góða vörn í síðari hálfleik. Lokatölur 63-101.
Ólafur Ægisson kom heimamönnum í 3-2 með 3ja stiga körfu sem Pétur svaraði síðan í sömu mynt. Eftir það tóku gestirnir frumkvæðið og upp úr miðjum fyrsta leikhluta skildu leiðir. Staðan var 21-32 að honum loknum og heimamönnum tókst aðeins að krafsa í forystu Stólanna framan af öðrum leikhluta en Stólarnir bættu í fyrir hlé. Staðan 42-57 í leikhléi.
Stólarnir komu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og KR b komst ekki á blað fyrr en um miðjan þriðja leikhluta. Þá var munurinn orðinn 25 stig. Tindastóll sigraði þriðja leikhluta 22-11 og fjórða leikhluta 22-10 og leikinn því sem fyrr segir 63-101.
Allir leikmenn Tindastóls fengu að njóta sín í leiknum og flestir að spila í kringum 15 mínútur; nema Pétur sem lék í 27 mínútur. Hann var stigahæstur með 16, Samb kom næstur með 15 stig en KR-ingar voru iðnir við að brjóta á kappanum og Caird setti sömuleiðis niður 15 stig. Þá var Svabbi með 7 stig og 12 fráköst. Allir leikmenn Tindastóls komust á blað en annars má lesa nánar um stigaskor leikmanna hér >
Í liði KR var Ólafur Ægisson með 14 stig en næstir honum komu Magnús Helgason og Fannar Ólafsson með 11 stig hvor. Fyrrum Tindastólsmaðurinn, Skarphéðinn Freyr Ingason, náði sér ekki alveg á strik í leiknum og setti niður 4.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.