Fagna útgáfu 42. Skagfirðingabókar um helgina
Skagfirðingabók, rit Sögufélags Skagfirðinga, er komin úr prentun, sú 42. í röðinni og af því tilefni haldið útgáfuhóf á Kaffi Króki laugardaginn 1. apríl nk. „Það er ekki plat!“ segir Hjalti Pálsson, einn ritstjóra bókarinnar.
„Það koma þrír höfundar og kynna efni bókarinnar; Kári Jónasson, þekktur sem fréttamaður og fréttastjóri á RÚV og afkomandi Jónasar frá Hróarsdal. Hann er með langan þátt um langafa sinn og ætlar að spjalla um hann. Síðan kemur Magnús Pétursson sem bjó til prentunar minningar ömmu sinnar, Önnu Jóhannesdóttur á Vindheimum og ætlar að segja frá því. Ég sjálfur er með langan þátt þarna líka um Valdimar nokkur Friðfinnsson, mann sem fæddist í Hvammi í Hjaltadal 1876 og varð ævintýramaður mikill. Hann endaði ævi sína á Galapagos eyjum þar sem hann bjó í 14 eða 15 ár og dó þar. Sjálfsagt eini Íslendingurinn sem hefur búið á Galapagos svo maður viti til,“ segir Hjalti með sinni alkunnu sagnagleði.
„Svo er löng grein eftir Jón Kristjánsson frá Óslandi, fv. alþingismann og ráðherra, hann skrifar minningar úr Óslandshlíðinni. Svo eru styttri greinar með,“ útskýrir Hjalti en þar eru á ferðinni hugrenningar Gylfa Ísakssonar um örnefnið Gollur sem m.a. er að finna í Hjaltadal og þætti Jóns Sigurðssonar á Reynistað úr liðinni ævi. Einnig má finna skrif Jóns Rögnvaldssonar frá Hrauni á Skaga um bernskujól og fleiri minningar og þátt um grafskrift Halldórs biskups sem Sigurjón Páll Ísaksson bjó til prentunar.
Átti 32 börn
Það stefnir því í skemmtilega samveru þegar útgáfuhátíðin fer fram en auk þess að njóta frásagnargleði þeirra Magúsar, Kára og Hjalta verða einnig í boði veitingar og bókin að sjálfsögðu til sýnis og sölu.
Hjalti segir að nýir félagar séu ávallt velkomnir í Sögufélagið enda vanti alltaf nýja áskrifendur. „Það ganga alltaf nokkrir úr skaFtinu, kannski um 20 manns á ári sem ýmist falla frá eða af öðrum orsökum hætta þannig að það þarf að berja í brestina og fá nýja félagsmenn til að halda uppi þessari útgáfu. Það er grundvallaratriði að hafa marga félaga á bak við sig og þetta er þannig að félagsmenn hafa engar skyldur til að kaupa neitt nema Skagfirðingabók, aðrar bækur eru val og þetta gjald er jafnframt félagsgjald í Sögufélagið.“
Hjalti segir útgáfuna ganga vel og meira efni safnist að ritstjórn en hún kemst yfir að birta og er þegar farið að huga að næstu bók sem væntanlega kemur út að ári liðnu. Hægt er að gerast félagi Sögufélagsins og þá um leið áskrifandi að Skagfirðingabók með því að hringja í síma 453 6261 og 897 8646 eða senda skeyti á netfangið saga@skagafjordur.is.
Hjalti segir umfjöllunarefnið ýmist koma frá fólki eða að ritstjórn biðji um efni t.d. þá grein sem nú birtist um Jónas í Hróarsdal. „Það er langt síðan ég fór á fjörurnar um að fá skrifað um Jónas í Hróarsdal. Þetta var stórmerkilegur maður. Hann var ekki bara mikill barnakarl,“ segir Hjalti en hægt var að staðfesta 32 börn hjá honum. „Hann var þrígiftur og flest börnin átti hann með seinni konunum. Fyrsta konan dó af barnsförum sem varð til þess að hann fékk sér bækur um ljósmóðurfræði og varð einstaklega heppinn og flinkur ljósfaðir. Það er talið að hann hafi tekið á móti á milli fimm til sex hundruð börnum á sinni löngu ævi og það dó aldrei kona hjá honum, eftir því sem manni er sagt. Svo var hann með lyfjalækningar, var smiður og uppfinningamaður, snilldarmaður og vel gefinn.“
Jónas átti þrjú ár í nírætt er hann lést árið 1927 og telur Hjalti að afkomendur hans séu nokkuð yfir eitt þúsund, bæði hér á landi og í Vesturheimi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.