Fæddi barn á Þverárfjallsvegi

Jenný Lind Sigurjónsdóttir og nýfædda dóttirin. Myndir af FB-síðu Jennýjar.
Jenný Lind Sigurjónsdóttir og nýfædda dóttirin. Myndir af FB-síðu Jennýjar.

Hún var ekki að láta bíða eftir sér litla stúlkan sem kom í heiminn á Þverárfjallsvegi á mánudagskvöldið en verið var að flytja móðurina, Jenný Lind Sigurjónsdóttur, í sjúkrabíl til Akureyrar þar sem fæðingin átti auðvitað að fara fram. Að sögn Jennýjar er líðan þeirra mæðgna góð en þær eru komnar heim eftir að hafa gist eina nótt á Akureyri.

Jenný býr ásamt barnsföður sínum, Ingimar Vignissyni, á Skagaströnd og skrifar hún á Facebook-síðu sína að loksins hafi kraftaverkið komið sem tók þau fjögur ár að búa til, þrjár glasameðferðir og ansi mörg tár.

„Hún var alveg sultuslök fram á 41. viku og þá ákvað mín bara að mæta og það með hraði. Hringdum á sjúkrabíl sem ætlaði að bruna með okkur á Akureyri, Arna ljósmóðir kom á móti okkur frá Króknum en við náðum nú ekki lengra en rétt upp á Þverárfjall, þar sem við urðum bara að gjöra svo vel að leggja út í kant og klára þetta.“

Jenný segist hafa verið svo heppin að Anna María, sem einnig er ljósmóðir, hafi ákveðið að bruna með Örnu þannig að þær mæðgur voru í góðum höndum.

„Og sjúkraflutningamennirnir stóðu sig eins og hetjur. Beggi, sem er búin að þekkja mig frá því að ég var ungabarn, og Einar Óli, sem var orðinn frekar stressaður held ég, að þetta barn myndi bara mæta áður en við hittum á ljósmóðurina. Og tala nú ekki um viðbragðsaðilana sem fylltu húsið hjá okkur og héldu mér rólegri þangað til að sjúkrabíllinn kom.“

Stúlkan fæddist klukkan 21:07 eftir tveimur tímum eftir að Jenný varð fyrst vör við það að eitthvað gæti verið að gerast sem tengdist fæðingu barnsins, 16 merkur og 52 sm.

Feykir óskar hinum nýbökuðu foreldrum til hamingju!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir