Eyþór og Lindin í frímúrarahúsinu á sunnudag

Eyþór Árnason, Helga Rós Indriðadóttir og Berglind Þorsteinsdóttir. Mynd: PF
Eyþór Árnason, Helga Rós Indriðadóttir og Berglind Þorsteinsdóttir. Mynd: PF

Næstkomandi sunnudag, 13. nóvember verður haldin í frímúrarahúsinu á Sauðárkróki metnaðarfull söngdagskrá með ævisöguívafi byggða á höfundarverki Eyþórs Stefánssonar og ævisögu hans eftir Sölva Sveinsson. Auk þess að hlýða á söng frábærra listamanna fá gestir að heyra frá, ekki síðri listamanni, Eyþóri Árnasyni leikara frá Uppsölum, flutning um ævi og störf Eyþórs.

„Loksins er að verða af þessu en hugmyndin kviknaði haustið 2020 og áætlunin var að sýna á Sæluviku 2021 en það ár voru 120 ár liðin frá því Eyþór Stefánsson fæddist hér á Sauðárkróki. Mér fannst ástæða til þess að heiðra minningu hans og minna á hvað hann var mikilvægur í menningarlífinu hér á 20. öldinni að ég tali ekki um að flytja fallegu lögin hans. En covid setti strik í reikninginn allt fram á síðasta sumar og ný dagsetning ákveðin. Mér fannst aldrei koma annað til en halda þetta hér á Sauðárkróki og þá hér í Frímúrarahúsinu,“ segir Helga Rós.

Hún segist heppin að hafa fengið að kenna unga fólkinu sem syngur í verkinu, þeim Jóel, Ragnheiði Petru og Sindra og hafa þau öll sungið lögin hans Eyþórs í sínu námi en Petra stundar nú nám í Listaháskólanum í Reykjavík.

„Það er sérstaklega gaman að stilla saman öllum þessum fínu ólíku röddum og ekki er nú ónýtt að fá stórtenór eins og Gissur Pál í félagsskapinn. Við Guðrún Dalía píanóleikari höfum unnið saman til margra ára en hún er fantagóð. Munir Eyþórs, í eigu Byggðasafns Skagfirðinga, gefa sérstaka stemningu en Berglind safnstjóri og hennar fólk hafa byggt upp litla sviðsmynd þar sem sjá má frakka Eyþórs staf og hatt svo fátt eitt sé nefnt.“

Helga bendir á að margir eigi minningu um þau hjónin, Eyþór og Sissu, þar sem þau gengu teinrétt og virðuleg um götur bæjarins og segir hún það sitt happ að Sölvi Sveinsson hafi verið að skrifa ævisögu Eyþórs og lánað henni handrit sitt í ársbyrjun 2021 en upp úr því vann hún ævisöguívafið, textabrot sem flutt verða á tónleikunum, tenging við ljóðin og lögin.

„Eyþór Árnason kom svo til sögunnar síðastliðið sumar, slípaði þetta allt saman til, góður í íslensku eins og allir þekkja, hefur gefið út fjölda ljóðabóka. Hann var nú ekki alveg á því að leika nafna sinn sjálfan þó leikari sé en verður sögumaður og er þaulvanur sviðstjórn úr starfi sínu í Hörpu.“

Helga segir að vel hafi gengið að fá fólk til að vera með en í upphafi hafi ekki verið gert ráð fyrir Skagfirska kammerkórnum. „Þau koma inn í þetta síðar og alveg nauðsynlegt að hafa kór með þar sem Eyþór starfaði alla tíð með kórum.“

Hvernig myndir þú meta stöðu Eyþórs Stefánssonar innan íslenskra tónskálda, er hann þekktur meðal flytjenda og lög eftir hann mikið flutt?

„Eyþór stendur íslensku tónskáldunum sem sömdu rómantísk sönglög á 20.öld ekki að baki, svo ég nefni nöfn, Sigfús Einarsson, Emil Thoroddsen og Sigvaldi Kaldalóns. Lögin eru mikið notuð í kennslu, allir söngnemendur syngja, Lindina, Myndin þín og Mánaskin, jólasálmurinn, Ó, Jesú barn, ómar enn í kirkjum um jólin og Bikarinn, dramatískur og flottur, oft líka á efnisskrá einsöngvara. Lögin eru alls ekki auðveld í flutningi, línurnar eru langar og ná yfir stórt raddsvið en þau liggja vel, hann hefur haft góða tilfinningu fyrir því að skrifa fyrir söngröddina.“

Í lokin vill Helga Rós koma á framfæri kæru þakklæti til allra sem koma að viðburðinum með henni. „Eins Sölva Sveins, Steini Kárasyni, Huldu Jónsdóttur og Friðbirni G. Jónssyni. Við höfum átt allmörg skemmtileg samtöl og Friðbjörn lét mig einmitt hafa nótur af einu lagi sem ekki var í nótnaheftinu, 26 sönglög eftir Eyþór Stefánsson sem gefið var út árið 1997 en það voru barnabörn Eyþórs sem stóðu að þeirri útgáfu. Svo má ekki gleyma að nefna styrktaraðila, þar ber að nefna Uppbyggingasjóð SSNV en það er mikil hvatning og umsóknarferlið hjálpar til við utanumhald og skipulag þegar ráðist er í svona verkefni. Ég vona að sem flestir sjái sér fært að koma og njóta. 
Sunnudagur 13.nóvember, kl. 16.00 í Frímúrarahúsinu á Sauðárkróki. Miðar við innganginn, kr. 3500 - enginn posi.“

------

Eyþór Stefánsson fæddist á Sauðárkróki 23. janúar 1901 og lést á Sjúkrahúsi Sauðárkróks 3. nóvember 1999, 98 ára að aldri.

Rúmlega tvítugur hóf Eyþór Stefánsson að semja tónlist og hefur hann samið um 70 sönglög og aðra tónlist af ýmsu tagi, segir í samantekt Steins Kárasonar sem Feykir birti árið 2021 er eitt hundrað og tuttugu ár voru liðin frá fæðingu skáldsins, en hjá Ríkisútvarpinu eru skráðar yfir 200 upptökur að lögum hans.

„Eyþór var á langri ævi einn helsti menningarfrömuður Sauðkrækinga og Skagfirðinga allra og var sýndur margháttaður sómi um ævina. Hann var heiðursborgari Sauðárkróks og var heiðursfélagi í mörgum félögum á Sauðárkróki og í Tónskáldafélaginu. Hann var sæmdur gullmerki frá Félagi íslenskra leikara og stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að menningarmálum á Sauðárkróki,“ skrifar Steinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir