Étið meira lambakjöt! Leiðari Feykis
Ég rak augun í mjög svo athyglisverða frétt á Hringbraut í vikunni með yfirskriftinni - Gísli Marteinn setti Twitter á hliðina: „Veit einhver hvað við erum að fara drepa mörg lömb næstu vikurnar?“ Að vonum fékk sjónvarpsmaðurinn og borgarfulltrúinn fyrrverandi mikil viðbrögð við færslu sinni á Twitter enda gildishlaðin í topp.
„Veit einhver hvað við erum að fara að drepa mörg lömb næstu vikurnar? Það er akkúrat ekkert mál að velja að borða ekki kjöt. Fullt af frábærum mat til sem krefst þess ekki að við drepum viti borin og góð dýr með tilfinningar og karakter,“ sagði Gísli Marteinn í færslunni.
Þetta er alveg rétt hjá Gísla, það er sjálfsagt ekkert mál að hætta að borða kjöt eða neyta nokkurra afurða sem koma frá húsdýrum landsins hvað þá fiskmeti sem ýmist er dregið upp úr sjó eða alið í kerjum. Og sjálfsagt væri líka hægt að éta annað en gæsir og rjúpur sem verða skyttum að bráð seinni hluta árs. Margir hafa valið sér þann lífsstíl og ekkert nema gott um það að segja. Verði þeim að góðu.
En það er enn þá til fólk sem velur að borða kjöt og ég er einn af þeim. Lífið án kjötmetis væri galtómt fyrir mér. Ég var líka alinn upp við það að halda skepnur sem enduðu á matardisknum, bæði kindur og hross þó ég geri það ekki í dag. Á engar kindur en lamba- og folaldakjötið kaupi ég út úr búð. Takk fyrir það bændur góðir.
Það hversu mörgum lömbum er lógað hvert haust er örugglega hægt að komast að í gegnum skýrslur hjá Þjóðskrá en þau skipta hundruðum þúsunda og ekki veitir af. Ef eitthvað er þyrfti að leggja meiri áherslu á markaðsstarf á lambakjöti til að auka neyslu og gefa sauðfjárbændum kost á að starfa áfram við þennan geira landbúnaðarins.
Ég er ansi hræddur um það að ef ekki tekst að koma afurðum dilkakjötsframleiðslunnar til nútímans muni sjálfhætt í sveitinni. Kynslóðin sem kaupir súpukjöt í byggingaplasti eldist og við taka kjúklingaæturnar sem vilja lítið hafa fyrir eldamennskunni.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.