Eru ekki allir í stuði!?
Var einhver Skagfirðingur ekki stoltur af Stólunum í kvöld? Tindastólsmenn geystust í DHL-höll Íslandsmeistara KR, eftir hörmulegt tap í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn, og buðu heimamönnum upp á baráttu um hvern einasta fersentimetra í húsinu. Og það var bara annað liðið til í slaginn. Stólarnir náðu upp sömu mögnuðu stemningunni og í bikarúrslitunum fyrr í vetur og það þrátt fyrir að Hester væri ekki með sökum meiðsla. KR gafst í raun upp í byrjun síðari hálfleiks og máttu þola tap gegn Stólunum. Lokatölur 70-98.
Það voru 18 ár síðan Stólarnir unnu KR síðast í Vesturbænum og ekki var útlitið gæfulegt fyrir leik því ljóst var að Hester gæti ekki tekið þátt í leiknum sökum meiðsla. Helgi Rafn, sem átti sennilega sinn besta leik í einhver ár, gerði fyrstu körfu leiksins en KR-ingar náðu vopnum sínum og voru yfir 14-7 um miðjan fyrsta leikhluta. Axel setti þá þrist og síðan tók Pétur Birgis leikinn yfir og hóf að raða niður körfum en hann gerði 21 stig í fyrri hálfleik og KR-ingar réðu hreinlega ekkert við hann. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 28-26 fyrir KR og tveir þristar frá Marcus Walker gáfu heimamönnum forskot í upphafi annars leikhluta. En þegar 12 mínútur voru liðnar og staðan 36-30 snérist leikurinn Stólunum í hag. Næstu 28 mínútur gerðu KR-ingar aðeins 34 stig!
Körfur frá Helga Rafni, Pétri og Axel breyttu stöðunni í 36-40 og skyndilega var öll stemning Stólamegin. Þeir pressuðu pirraða Vesturbæinga um allan völl og leikur þeirra fór heldur betur að hiksta. Þeir héngu í Stólunum næstu mínútur en þristur frá Viðari kom muninum í sex stig fyrir hlé. Staðan 44-50. Það mátti ímynda sér að KR-ingar hefðu vanmetið vængbrotna Stóla fyrir leik og nú myndu meistararnir laga sinn leik í hálfleik. Leikmenn Tindastóls voru búnir að fá mikið af villum og það hlyti að draga af leikmönnum því hópurinn var orðinn nokkuð þunnur. Ekki nóg með að Hester var ekki með heldur meiddist Hannes Ingi strax í byrjun og Arnar hafði ekki gert eitt einasta stig í fyrri hálfleik. En það var nú öðru nær.
Pétur setti niður þrjú víti í byrjun síðari hálfleiks og fljótlega var munurinn orðinn um tíu stig. Eftir fjórar mínútur gerði Arnar einu körfu sína í opnum leik og staðan 52-65 og síðan fylgdu tvær körfur frá Axel og Helga. KR-ingar virtust algjörlega heillum horfnir og þeir voru að missa boltann klaufalega, tapa baráttunni um allan völl og Stólarnir hirtu sóknarfráköst nánast að gamni sínu. Villukóngurinn Friðrik Þór setti þrist og Stólarnir voru komnir með 20 stiga forskot í DHL-höllinni. Staðan 58-78 og 12 mínútur eftir af leiknum. Var þetta virkilega að gerast?!
Davenport, sem átti frábæran leik eins og allt lið Tindastóls, sá til þess að 21 stigi munaði fyrir lokafjórðunginn. Jón Arnór ætlaði að gefa sínum mönnum tóninn í upphafi fjórða leikhluta með þristi en hitti hvorki körfuna né hringinn. Björgvin Hafþór svaraði með þristi úr horninu. Brynjar Þór reyndi að espa sína menn í gang með mannalátum en uppskar sóknarvillu og þá var ljóst að hausinn var af KR-ingum og Stólarnir sigldu heim mögnuðum sigri í rólegheitum.
Meistaraverk hjá Martin og strákunum
Þvílíkt meistaraverk hjá Israel Martin og strákunum okkar! Það var ekki mikill tími milli leikja – einn dagur – en sá tími var nýttur til að skoða fyrsta leikinn, læra af mistökunum og fínstilla það sem betur mátti fara. Og hugarfarið – það þurfti að kveikja á því. Liðsheildin í kvöld var fullkomin og á pöllunum í DHL-höllinni var mögnuð stemning óteljandi Tindastólsmanna sem studdu sína menn af lífs og sálarkröftum.
Hester og Arnar hafa farið fyrir Stólunum í stigaskori í vetur en nú var Hester ekki með og Arnar fann sig ekki í skotunum. Hann endaði með þrjú stig en hann spilaði vörn og var mikilvægur í sóknarleiknum. Pétur átti snilldarleik; gerði 26 stig og átti níu stoðsendingar og hann tók af skarið þegar þess þurfti. Helgi Rafn var með 18 stig og tíu fráköst og Axel var 14 stig, þar af fjóra þrista í sjö tilraunum. Davenport var 12 stig og sjö fráköst og Viðar með 12 stig, fjóra þrista í fimm tilraunum. Lið Tindastóls tók 12 sóknarfráköstum meira en KR í leiknum og var hreinlega betra á öllum sviðum körfuboltans í kvöld.
Stigahæstir í liði KR voru Kristófer Acox og Kendall Pollard með 12 stig hvor. Það er næsta víst að það verður tekið á honum stóra sínum næstkomandi miðvikudagskvöld þegar liðin mætast í þriðja leiknum í Síkinu á Króknum. Staðan í einvíginu er 1–1. Koma svo – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.