“Ertu viss” Gísli Sigurðsson
Það hefur löngum verið plagsiður í aðdraganda kosninga hjá aðstandendum sumra flokka að halla réttu máli gagnvart pólitískum andstæðingum og gera þeim upp skoðanir, ekki síst í tveggja manna tali. Það ber hins vegar nýrra við þegar 3. maður á lista Sjálfstæðisflokksins gerir slíkt með opinberum hætti á síðum Feykis, ber á undirritaðan ætlaðan stuðning við áform meirihlutans um gerð skrúðgarðs á æfingavöllunum við Nafirnar!
Flestum má vera ljóst að ekkert framboð hefur haft uppi öflugri málflutning til varnar glæsilegu íþróttasvæði í hjarta bæjarins en fulltrúar VG, svo sem sannreyna má í fundargerðum sveitarfélagsins, t.d. 19. maí 2009 og síðastliðinn þriðjudag. Við höfum haldið þessari afstöðu einarðlega á lofti undanfarin misseri og verið harla ein um það á vetvangi sveitarstjórnar, nema ef vera kynni nú síðustu dagana fyrir kosningar.
Ég hef aldrei verið talsmaður þess að gert skuli ráð fyrir æfingasvæði í Sauðárkílum, úr tengslum við glæsilegan aðalleikvang, þrátt fyrir að hafa ekki tekið það sérstaklega fram í bókun. Ég hef ekki heldur bókað sérstaklega um menningarhús við Árskóla en verð þó seint talinn fylgjandi því. Ég vil taka það fram, að sem áheyrnarfulltrúi í Skipulags- og byggingarnefnd, hef ég ekki atkvæðisrétt í afgreiðslu mála úr nefndinni, ólíkt Gísla Sigurðssyni, sem notaði ekki tækifærið til að koma skoðunum sínum á framfæri, heldur kaus að bóka hjásetu.
Það er skondið að degi eftir að Gísli Sigurðsson, ásamt öðrum fulltrúum sjálfstæðisflokksins, kaus að taka ekki afstöðu og sat hjá þegar sveitarstjórn samþykkti að setja rammaskipulag fyrir Sauðárkrók í kynningu, skyldi birtast eftir hann grein þar sem hann lýsir andstöðu við að gengið sé á íþróttasvæðið eins og gert er ráð fyrir í skipulagstillögunni. Á sveitarstjórnarfundinum talaði hann af myndugleik gegn því að svo yrði gert en fylgdi svo ekki eftir þeirri afstöðu með atkvæði sínu. Eitt er að tala en annað að standa á afstöðu sinni. Hver mun afstaðan verða þegar á hólminn verður komið? Hversu naglfastar eru yfirlýsingar nú um mikilvægi þess að standa vörð um íþróttasvæðið? Einungis VG reyndist andvígt því að setja í kynningarferli rammaskipulag sem gerði ráð fyrir því að valda óbætanlegum skaða á einu glæsilegasta íþróttasvæði landsins.
Gísli Árnason
Skipar 2. sætið á lista VG í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.