Ertu með skjólu á höfðinu?

Nemendur í 5. - 7. bekk Varmahlíðarskóla tóku þátt í Nýyrðasamkeppni sem Íslensk málnefnd ásamt fleiri stofnunum stóðu að. Tveir nemendur í 5. bekk Varmahlíðarskóla fengu viðurkenningu fyrir sínar tillögur.

 

Gréta María Halldórsdóttir fékk 1. verðlaun fyrir orðið skjóla í staðinn fyrir orðið buff og Sigfinnur Andri Marinósson fékk viðurkenningu ásamt 6 öðrum nemendum. Íslensk málnefnd hleypti nýyrðakeppninni af stokkunum á degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn.  Alls bárust úrlausnir frá 1763 nemendum í 82 skólum um land allt.

Ákveðið var að veita fyrstu verðlaun fyrir tillögu um að nota orðið skjóla fyrir buff. Vakin er athygli á því að orðið skjóla sé að vísu haft um fötu, en í orðinu felist að það geti verið haft um eitthvað sem „veitir skjól“ og það geri þetta fat svo sannarlega.

Annað orð fyrir buff, strokkur, kom ríflega 26 sinnum fyrir en það er einnig notað um ílát til þess að strokka rjóma. 

Markmið keppninnar er að vekja athygli á því að unnt er að nota íslensk orð þar sem oft eru notuð erlend orð eða slettur. Aðstandendur keppninnar telja að það markmið hafi náðst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir