Ernan á Borgarsandi :: Glæst skip sem endaði í ljósum logum
Ef eitthvað jákvætt er hægt að segja um það ástand sem nú hefur ríkt á Íslandi undanfarið misseri vegna Covid-19 þá er það útivera og hreyfing margra. [Ath. greinin er frá 2020] Teknir eru göngutúrar úti í náttúrunni, reiðhjólin brúkuð sem aldrei fyrr og hestamennskan á miklum krafti eftir að Kári ákvað að hætta sínum blæstri með snjó og leiðindum. Ótal myndir héðan og þaðan hafa sést á samfélagsmiðlum og bera merki þess að viðkomandi myndasmiður er oftast nær ánægður með sitt umhverfi. Sauðkrækingar hafa í gegnum tíðina notað Borgarsandinn, fjöruna neðan staðarins, til útiveru allan ársins hring og gjarna er myndað. Flestar myndirnar sýna skipsflakið sem legið hefur grafið í sandinum í rúma hálfa öld, dást að því og nota sem kennileiti, en fæstir þekkja sögu skipsins sem í daglegu tali er nefnt Ernan. Feykir fór á stúfana og leitaði mynda af skipinu og rifjaði upp sögu þess og naut aðstoðar margra sem fá þakkir að launum.
Eins og áður segir hefur Ernan verið kennileiti margra sem um Borgarsandinn fara. Fólk gengur niður að Ernu, veiðimenn kasta þar öngli fyrir sjóbirting á vorin og hestamenn sem áður hýstu hross sín inni í bæ riðu að Ernunni. Heyrði ég þá sögu að Mundi Gulla hefði iðulega sagst hafa farið niður að spýtu er hann var spurður hvert hann hefði riðið þann daginn. Ekki var vitað fyrir víst hvort hann ætti við Ernuna sjálfa eða einhvern rekaviðardrumbinn sem strandað hafði í fjörunni.
En hvað um það, hver og einn á sína sögu tengda Ernunni, áður glæstu fiskiskipi sem átti sín gullaldarár, síðar dregin vélarvana til Sauðárkróks. Varð brúarlaus prammi sem bar skurðgröfu sem notuð var til að dýpka höfnina upp með landganginum fyrir trillurnar, og varð að endingu öllum til ama. Brúin var tekin af skipinu og notuð sem fjárhús á túni Arnar Sigurðssonar, sunnan sjúkrahússins, og stóð þar allt fram á þann dag er nota þurfti blettina undir íbúabyggðina í Túnahverfinu.
Í samtali við Gunnar Pétursson, fyrrverandi verkstjóra hjá Sauðárkróksbæ,, og síðar Svf. Skagafirði, kom fram að til hefði staðið að fjarlægja flakið skömmu eftir bálför skipsins enda ekki þótt mikil prýði í annars fallegri fjöru. Sem betur fer var hætt við þá framkvæmd.
„Þetta var ákaflega mikið happaskip framan af en síðan er farið með það til Svíþjóðar og það lengt og skipt um vél. Eftir það gekk ekkert og alltaf einhver óhöpp í kringum þetta skip eftir þá stækkun,“ segir Ingólfur Sveinsson sem man vel eftir prammanum og því hlutverki sem hann þjónaði. Eftir að Ernan, sem legið hafði lengi við bryggju og skemmt hana er vont var í sjóinn, var ákveðið að draga prammann að Borgarsandinum og kveikja í. Ingólfur segir að þetta hafi verið úreldingaraðferð þess tíma og töldu menn að Ernan myndi hverfa fljótt í eldi og það sem af henni brotnaði sykki í sandinn. Það var faðir Ingólfs, Sveinn Nikodemusson, þáverandi hafnarvörður, sem fór í fararbroddi þeirrar vinnu eins og fram kemur síðar í greininni.
Í Króksbókinni, riti Rótarýklúbbs Sauðárkróks sem gefið var út 1993 og endurútgefið tveimur áratugum síðar, er kafli sem Ágúst Guðmundsson skrifaði um skipið sem geymir áhugaverða sögu. Feykir fékk góðfúslegt leyfi til að birta kaflann og vonandi hafið þið gaman af lesendur góðir.
Á Borgarsandi eru leifar af eikarskipinu Ernu sem glatt hafa augu göngufólks og ófáir hafa ljósmyndað, gjarnan í forgrunni miðnætursólar. Ekki er úr vegi að rifja upp sögu skipsins.
Erna sigldi m.a. á árum síðari heimstyrjaldar til Englands með fisk eins og flest stærri skip gerðu á þeim árum. Ernan þótti lág í sjó og gamlir sjómenn á Króknum sögðu að skipið hefði verið svo ljótt að Þjóðverjar hafi ekki tímt að eyða tundurskeyti á það! Skipið í sandinum er Erna EA 200, smíðað í Svíþjóð árið 1916 úr eik og furu, 77 brúttólestir að stærð með 92 ha Avance vél. Frá 20. ágúst 1927 var eigandi að skipinu Jón Hjaltalín, Siglufirði. Árni Böðvarsson í Vestmannaeyjum keypti Ernuna árið 1928. Um tveimur árum síðar eða 19. nóvember 1930 keyptu Jón og Steindór Hjaltalín á Akureyri skipið. Það ár var sett í Ernuna 100 ha Skandia vél og sjö árum síðar var skipsvélin enn endurnýjuð og um borð var sett niður 110 ha June Munktell vél. Erna landaði 1073 málum af síld á Siglufirði fyrri part árs 1935 ef marka má tímaritið Siglfirðing frá 6. júlí sama ár.
Árið 1944 var skipið lengt og mældist þá 109 brúttólestir. Þær framkvæmdir heppnuðust ekki sem skyldi. Þann 19. maí 1948 keypti Núpur hf. í Reykjavík skipið sem þá hét Erna RF 15. Enn var skipið selt eða þann 8. maí 1952 og voru kaupendur þeir Sturlaugur Jónsson og Jón Jónsson í Reykjavík. Síðustu vélarskiptin fóru fram árið 1956 er sett var niður í Ernu 500 ha Paxmann dieselvél.
Frá Akureyri var Ernan dregin til Sauðárkróks, sennilega árið 1960. Þar var dekkið styrkt til að bera skurðgröfu sem var notuð til að dýpka Sauðárkrókshöfn. Mokað var í pramma sem dreginn var út og losaður. Ernan lá lengi við suðurbryggjuna og olli tjóni á planinu.
Sveinn Nikodemusson þáverandi hafnarvörður gekkst fyrir því að Ernan var dregin út úr höfninni og suður með sandi. Borin var í hana olía og bensín og skipið síðan brennt. Áður hafði brúin verið tekin af skipinu og var lengi notuð sem fjárhús á túnunum sunnan við spítalann. En svo hörð var eikin í Ernunni að skipsskrokkurinn brann illa og enn skreytir Borgarsandinn grjótharður kjölurinn og neðri hluti byrðingsins. Erna var afskráð af skipaskrá þann 17. apríl 1962.
Fyrir áhugasama um Króksbók er hægt að nálgast hana hjá Rótarýfélögum og betri verslunum landsins.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er Ernan smátt og smátt að hverfa af yfirborði jarðar og spurning hvernig umhorfs verður á Borgarsandi eftir áratug eða tvo. Hvernig viljum við hafa fjöruna, með eða án skipsflaks. Því verður hver og einn að svara fyrir sjálfan sig en greinarhöfundur hallast helst að því að fá annað flak og vísar í forsíðufrétt Feykis þann 1. apríl sl. þar sem stórgóð hugmynd var sett fram á lygilegan hátt (Enda um aprílgabb að ræða!). Sjá HÉR.
Áður birst í 16. tbl. Feykis 2020.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.