Er mikill aðdáandi Abba / SVEINN SIGURBJÖRNS
Að þessu sinni svarar Sveinn Sigurbjörnsson, skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar, nokkrum laufléttum spurningum í Tón-lystinni. Sveinn er fæddur 1960 og alinn upp í Þorpinu á Akureyri. Hann kannast ekki við nein ættartengsl í Skagafjörð eða Húnavatnssýslur en segir þó að faðir hans, Sigurbjörn Sveinsson, pípari og járnsmiður, hafi verið í sveit í Skagafirði sem unglingur.
Aðalhljóðfæri Sveins er trompetinn en afrekin á tónlistarsviðinu eru mörg og hann nefnir sem dæmi að hann kom fram í sjónvarpsþætti um Akureyri, spilaði með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, hefur spilað með Steve Hagget og hinu skagfirska tónlistarteymi Multi Musica. Sveinn hóf að kenna við Tónlistarskólann á Sauðárkróki árið 1986 og hefur kennt þar nær óslitið síðan. Hann var ráðinn skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar árið 1999.
Hvaða lag varstu að hlusta á? Eitthvað með Abba – ég er mikill aðdáandi.
Uppáhalds tónlistartímabil? Tímabilin allt frá barrokk til þunga-rokks.
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er öll tónlistarflóran og einnig hvalahljóðin hjá Hallvarði vini mínum.
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Það var hlustað á íslenska dægurtónlist sem og klassísk.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir þér? Trompetplata með frönskum trompetleikara, Maurice André, og Lárusi Sveinssyni trompetleikara.
Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Plata með Ómari Ragnarssyni var með þeim fyrstu. Seinna komu plötur eins og trompetplötur, Carmína Burana o.fl.
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Fiskinn minn.
Uppáhalds Júróvisjónlagið? Waterloo með Abba.
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það besta á Spotify – eitthvað mjög fjörugt.
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Helst eitthvað rólegt klassískt.
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég færi á tónleika með Sinfó í Chicago með Guðfinnu dóttur minni.
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkomin með bílpróf? ABBA var það – er enn besta popgrúppan.
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Helsta fyrirmyndin er trompetleikarinn Maurice André.
Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Platan með Multi Musica... hahaha. Það er ekki hægt að dæma svona. Það eru svo margar klassískar góðar, erfitt að segja.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.