Er jafnræði á Íslandi?

Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrár eigum við öll að vera jöfn fyrir lögum. En erum við það? Sem móðir langveiks barns, búsett á landsbyggðinni  hef ég efasemdir um að svo sé.  Flest langvinn og alvarleg veikindi eru þess eðlis að sækja þarf til sérfræðings í þeim sjúkdómi sem um ræðir. Í langflestum tilfellum eru þeir sérfræðingar staðsettir á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri.

Eitt er víst að ekki eru þeir hér fyrir vestan! Og þá þurfum við að fara suður til sérfræðinganna. Það kostar! Tryggingastofnun  tekur þátt í ferðakostnaði, almennt er það tvær ferðir  á ári en fleiri ferðir ef um langvinnan alvarlegan sjúkdóm er að ræða. Þá er eftir að redda sér gistingu því að það eru alls ekki allir sem geta gengið að gistingu hjá skyldmennum vísri. Og það kostar! Við foreldrarnir þurfum að taka frí úr vinnu, sumarleyfi eða launalaust leyfi því hugsanlega eru dagarnir 12 sem við eigum vegna veikinda barna á ári eru farnir í veikindin sjálf, enda er jú um langveikt barn með alvarlegan sjúkdóm að ræða! Og það kostar!

Skoðum þetta aðeins nánar

Ef þessi fjölskylda byggi á höfuðborgarsvæðinu fær foreldri að skreppa úr vinnu eða tekur kannski tvo tíma í sumarleyfi og skreppur til læknisins og kemst svo í vinnu aftur. Ef þessi fjölskylda býr á landsbyggðinni þarf fyrst að koma sér suður. Hugsanlega er hægt að fá tíma á mánudegi og því hægt að keyra suður á sunnudegi en annars er keyrsludagurinn fyrsti dagur í fjarveru. Daginn eftir er tíminn hjá lækninum.  Annar dagur í fjarveru! Ef heppnin er með og hægt að fá tíma snemma dags er hægt að keyra heim aftur eftir tímann. Ef ekki þá er keyrt heim daginn eftir. Þriðji dagur í fjarveru! Sl. ár þurfti ég að fara fjórum sinnum með dóttur mína til læknis hennar í Reykjavík. í fyrstu ferð þurftum við að vera í fjóra daga, fyrir utan ferðadagana.  Og reiknið nú hvað það er mikil fjarvera! Og þetta er fyrir utan þá daga sem hún var veik. Þetta telur líka í fjarveru barnsins frá skóla!

Svo er það gistingin! Við fjölskyldan erum í þeim sporum að þurfa að leigja okkur íbúð í hvert sinn sem við förum suður í læknaferðir. Og það kostar! Ég efast um að við fjölskyldan séum ein í þessum sporum.

Búum við á öllu landinu við jafnræði  samkvæmt jafnræðisreglunni?  Ég spyr!

Sóley Veturliðadóttir, skipar 3. sæti Landsbyggðarflokksins í Norðvestur kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir