Er ekki í neinni baráttu um Bessastaði | Viktor Traustason
Laugardaginn 1. júní stingum við Íslendingar okkur inn í kjörklefa og setjum x við þann frambjóðanda sem við viljum sjá sem forseta þjóðarinnar næstu fjögur árin. Aldrei áður í sögu lýðveldisins hafa jafn margir einstaklingar skreytt kjörseðilinn eða hvorki fleiri né færri en tólf. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir forsetaefnin og gáfu þau sér öll tíma til að svara. Hér að neðan má lesa svörin sem Viktor Traustason gaf Feyki.
Hvers vegna á fólk að kjósa þig? - Það á enginn að kjósa mig. Ég vonast til að fólk fylgi einungis eigin sannfæringu og samvisku á kjördag. En ég stend fyrir það að þingmenn fái ekki að deila valdastöðum sín á milli á meðan þeir sinna þingmennsku, að þjóðin þurfi ekki að reiða sig á geðþótta einnar manneskju til þess að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og að allir kjósendur skuli fá fulltrúa á Alþingi.
Af hverju langar þig að verða forseti Íslands? - Mig langar ekki að verða forseti og ég myndi ekki treysta neinum til að vera forseti sem langaði til þess. Það er eitthvað óhuggulegt við þá tilhugsun. Það sem ég vil gera er að bjóða upp á valmöguleika sem inniheldur skýr og markviss stefnumál þannig að það sé í boði fyrir þá sem vilja.
Hvað hefur komið þér mest á óvart í baráttunni um Bessastaði? - Ég er ekki í neinni baráttu um Bessastaði og ef einhver ætlar sér að berjast við mig þá býð ég þeim hinn vangann líka. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hve yfirborðskennt þetta er allt saman á bakvið tjöldin líka.
Hver hefur verið stærsta áskorunin í þínu lífi? - Ætli það hafi ekki verið um áramótin þegar vinur minn skoraði á mig að safna undirskriftum.
Hvar og hvenær sástu maka þinn fyrst? - Ég ætla að sýna vinum, fjölskyldu og öðrum nánum í mínu lífi þá virðingu að vera ekki að varpa kastljósi fjölmiðla á þau. Takk samt fyrir áhugann.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? - Fornleifafræðingur, vegna þess að ég vissi ekki að Dr. Alan Grant væri steingervingafræðingur.
Bessastaðir eru ágæt búskaparjörð, til dæmis er þar ágæt fjörubeit fyrir sauðfé meira og minna allan veturinn. Hefur þú í hyggju að stunda búskap á Bessastöðum ef þú verður forseti? - Ég hef ekki velt því fyrir mér en það gæti vel hugsast. Mögulega að reyna að viðhalda stofni landnámshæna sem langaafi var einhvern tímann með. En annars er það bara eitthvað sem ég myndi skoða í samráði við nærsamfélagið, Álftanes. Það er óþarfi að gera það að einhverju málefni fyrir alla þjóðina.
- - - - -
Allir fengu frambjóðendurnir sömu spurningarnar. Tilviljun og rými réðu því í hvaða röð forsetaefnin fóru á síður pappírsútgáfu Feykis. Birtingartíminn hér á Feykir.is er öfug röð miðað við blaðið en viðtölin munu birtast frá miðvikudegi til föstudags. Feykir þakkar forsetaefnunum fyrir að gefa sér tíma til að svara.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.