Er ekki eitthvað skárra í sjónvarpinu?

Nú er pressa á Baldri þjálfara. Nær hann að snúa gengi Stólanna við? MYND: HJALTI ÁRNA
Nú er pressa á Baldri þjálfara. Nær hann að snúa gengi Stólanna við? MYND: HJALTI ÁRNA

Það er ekki mikil gleðin sem stuðningsmenn Tindastóls í karlakörfunni fá út úr því að horfa á liðið sitt þessa dagana. Það virðist vera djúpt á leikgleðinni og leikur liðsins er ekki beinlínis til að hrópa húrra yfir. Í gær spiluðu strákarnir gegn liði ÍR í Breiðholtinu, mikilvægur leikur og í raun ekkert annað en sigur á dagskránni. En það er því miður varla hægt að segja að Stólarnir hafi mætt til leiks og heimamenn unnu þægilegan 22 stiga sigur sem var aldrei í hættu. Lokatölur voru 91-69.

Það má reyndar segja að liðið hafi sýnt ágætan leik gegn Stjörnunni sl. sunnudagskvöld en tap var engu að síður staðreynd. Þremur dögum síðar var liðið aftur á ferðalagi í erfiðan útileik – en þá erum við eiginlega uppiskroppa með afsakanir. Baldur Þór, þjálfari Tindastóls, var eðlilega ósáttur við gang mála hjá liði sínu að leik loknum og í viðtali við mbl.is sagði hann að liðið yrði að gera betur bæði á varnar- og sóknarvelli. „Það var enda­laust af feil­um, eng­inn vilji til staðar og það þarf auðvitað að vera karakt­er í liðinu,“ sagði Baldur.

Stólarnir héldu í við gestina fyrstu fimm mínúturnar en síðan skildu leiðir. Varnarleikur Tindastóls hefur ekki verið til útflutnings í vetur og það versnar í því þegar skytturnar virðast ekki sjá körfuna en skjóta samt. Staðan var 31-17 að loknum fyrsta leikhluta og það var ekki mikið í spilunum sem benti til þess að Stólarnir næðu að klóra í bakkann lengi framan af öðrum leikhluta. ÍR náði 15 stiga forystu, 38-23, en körfur frá Brodnik og Pétri löguðu stöðuna og þristur frá Tomsick kom muninum undir tíu stigin fyrir hálfleik. Staðan 45-37.

Einhverjir vonuðust efalaust til þess að ágætar mínútur undir lok fyrri hálfleiks væru bara byrjunin á góðum leik Tindastóls en því fór fjarri, þriðji leikhluti var nánast kópering á þeim fyrsta. Fljótlega var munurinn orðinn 15 stig að nýju og þegar Colin Pryor tróð boltanum í körfu Tindastóls þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta kom hann muninum í tuttugu stig. Stólarnir héldu í horfinu til leiksloka.

Fallbarátta framundan?

Vandamál Stólanna virðast fleiri en eitt og fleiri en tvö. Allir eru sammála um að það eru góðir leikmenn í liðinu en það er sorgleg staðreynd að allt útlit er fyrir að ef ekki verður einhver jákvæð breyting á hugarfari eða leik liðsins þá verður ekki hlaupið að því að þessi hópur skili Tindastóli inn í úrslitakeppnina. Einhverjir eru jafnvel farnir að velta fyrir sér hvort Tindastóll verði með lið í efstu deild næsta vetur.

ÍR-ingar virðast hafa ágætt tak á Tindastólsliðinu og þó Breiðhyltingar hafi ekki verið að sýna sérstaka takta að undanförnu eru þeir í fimmta sæti Dominos-deildarinnar með 12 stig eftir leikinn í gær en lið Tindastóls í því áttunda með 10 stig. Jaka Brodnik var atkvæðamestur í liði Tindastóls með 17 stig og átta fráköst, Tomsick var með 15 stig, öll eftir 3ja stiga skot en Nick var nánast eini Stóllinn með lífsmarki utan 3ja stiga linúnnar. Aðrir leikmenn settu niður tvær 3ja stiga körfur í 22 tilraunum og liðið með 18% nýtingu utan 3ja stiga línunnar.

Það er erfitt að horfa á Tindastólsliðið þessa dagana og sumir stuðningsmenn jafnvel farnir að horfa á eitthvað annað þegar Stólarnir eru að spila! Það dugar hins vegar lítið að leggjast niður og væla, það er annað verkefni á sunnudaginn þegar KR-ingar mæta í Síkið. Vesturbæingar, undir stjórn Skagfirðingsins Darra Freys Atlasonar, hafa náð að slípa sitt lið saman og verið að spila vel að undanförnu. Þeir eru í fjórða sæti með 16 stig og ljóst að Stólarnir verða að mæta ákveðnir til leiks. Koma svo!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir