Er alveg hugfangin af prjónaskap
Kristín Guðmundsdóttir býr á Hvammstanga í Húnaþingi vestra. Hún er handlitari, þ.e litar ull í höndunum og selur undir merkinu Vatnsnes Yarn. Kristín er með vinnustofu í Skrúðvangi á Laugarbakka núna en byrjaði í eldhúsinu heima hjá sér árið 2016.
Kristín segir að allt ferlið við handlitun vera heillandi; að velja gott og fallegt hráefni til að vinna með, vera með ólitað garn í höndunum, tóman striga, og umbreyta því með einhverjum dýrðlegum lit. Það toppar síðan ferlið að sjá hvað viðskiptavinurinn hefur notað garnið í sem í flestum tilfellum eru handprjónaðar flíkur en einnig heklaðar og sumir eru að nota garnið frá henni í útsaum. Ég elska svo að prjóna segir Kristín. Garnið á öllum myndunum er garn sem Kristín handlitar fyrir Vatnsnes Yarn.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Síðan í kringum tvítugt en af alvöru frá þrítugu og af krafti síðan ég byrjaði að lita garn árið 2017.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég er alveg hugfangin af prjónaskap en finnst líka gaman að hekla og sauma.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er með á prjónunum tvær peysur, nokkra sokka og sjal.
Hvar fékkstu hugmyndina? Ég fæ hugmyndir að næsta prjónaverkefni oftast á Instagram eða Ravelry og svolítið einnig eftir því hvað vantar, leita uppi peysu á krakkana ef það vantar peysu á krakkana.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég er mjög ánægð með peysu sem ég prjónaði. Peysan kallast Soldotna og er með fallegan munsturbekk.
Eitthvað sem þú vilt bæta við? Allir geta lært að prjóna/hekla og garnsamfélagið er yndislegt :)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.