Enn gengur hvorki né rekur hjá Stólunum

Pape Mamadou Faye hefur skorað tólf mörk fyrir lið Tindastóls í sumar. Hér er hann í leik gegn Dalvík/Reyni á dögunum. MYND: ÓAB
Pape Mamadou Faye hefur skorað tólf mörk fyrir lið Tindastóls í sumar. Hér er hann í leik gegn Dalvík/Reyni á dögunum. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls er í slæmum málum í 3. deildinni en fyrr í dag spiluðu strákarnir gegn liði Sindra á Höfn. Líkt og í síðustu leikjum voru stigin þrjú mikilvæg báðum liðum en Stólarnir þurfa stigin nauðsynlega til að bjarga sér frá falli en Hornfirðingarnir eru að berjast um að næla sér í sæti í 2. deild að ári. Þrátt fyrir ágætan leik þá tókst Tindastólsmönnum ekki að næla í stigin. Lokatölur 2-1 fyrir heimamenn og staðan orðin verulega vond.

Það var talsverður vindur á Höfn í dag sem hafði áhrif á spilamennskuna. Eins of sagt var frá í Feyki fyrr í vikunni hefur Haukur Skúla látið af störfum sem þjálfari Tindastóls og þetta var því fyrsti leikur liðsins undir stjórna Atla Jónassonar. Snemma leiks varð dómarinn fyrir hnjaski og eftir að hafa valhoppað um völlinn í smástund varð ljóst að hann gat ekki haldið leik áfram. Aðstoðardómari tók hans stöðu en prestur þeirra Hornfirðinga var sjanghæaður úr stúkunni og settur á línuna. Pape kom liði Tindastóls yfir á 31. mínútu þegar hann gerði sitt tólfta mark í sumar. Ekki tókst þó að halda markinu hreinu ram að hléi því Mate Paponja jafnaði metin á 40. mínútu eftir mikinn sprett.

Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik eftir því sem Feykir kemst næst og allt stefndi í að liðin skiptu stigunum á milli sín. En eins og minnst hefur verið á fyrr í sumar þá hafa lokamínútur leikja ekki reynst Stólum happadrjúgar og svo var einnig í dag því á 87. mínútu gerði Hermann Þór Ragnarsson sigurmark Sindra og skaut þeim upp í annað sætið í deildinni.

Fyrir vikið er lið Tindastóls enn á botninum með 14 stig eftir 19 leiki sem er afar döpur uppskera. Þrír sigurleikir, fimm jafntefli og ellefu töp og þrjár umferðir eftir. Botnliðin þrjú töpuðu öll í dag og því er enn sá möguleiki fyrir hendi að Stólarnir nái að bjarga sér frá falli. Þá þarf lukkan að ganga í lið með okkur og er nú eiginlega kominn tími til.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir