Byggðagleraugun enduðu á nefi HMS á Sauðárkróki

Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður stjórnar SSNV og Aldís Hilmarsdóttur framkvæmdastjóra hjá HMS. MYND: SSNV.iS
Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður stjórnar SSNV og Aldís Hilmarsdóttur framkvæmdastjóra hjá HMS. MYND: SSNV.iS

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) hafa veitt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) viðurkenninguna Byggðagleraugun 2022 fyrir árangursríka uppbyggingu starfsstöðvar stofnunarinnar á Sauðárkróki. Starfsstöðin hefur mikla þýðingu fyrir samfélögin á Norðurlandi vestra og þykir fyrirmyndardæmi um árangursríkan flutning verkefna á landsbyggðina. Starfsstöðin hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin misseri og fer starfsmönnum fjölgandi með fjölgun verkefna. Vinnustaður eins og HMS hefur mikla þýðingu fyrir samfélagið.

„Stjórn HMS hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að ekki bara viðhalda starfsemi á Norðvesturlandi heldur að efla hana og styrkja. Frá því HMS var stofnað hefur stöðugildum á Sauðárkróki fjölgað um meira en þriðjung og í dag eru tæplega 30 starfsmenn sem tilheyra starfstöðinni. Það felast mikil tækifæri í að reka opinbera þjónustu á landsbyggðinni, starfsumhverfið er frábært og lífsgæði starfsmanna eins og best verður á kosið.“ Segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.

„Eitt helsta baráttumál okkar á Norðurlandi vestra hefur verið fjölgun starfa í landshlutanum. Störfin er það sem mestu máli skiptir í að fjölga hér íbúum og efla samfélögin. Fjölgun opinberra starfa er einn liður í því. Það er afar ánægjulegt að finna skilning stjórnenda HMS á því hvaða tækifæri felast í því fyrir stofnanir að efla sínar starfsstöðvar á landsbyggðinni og það er þess vegna sem ákveðið var að veita HMS viðurkenninguna að þessu sinni” segir Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður stjórnar SSNV.

Um Byggðagleraugun

Stjórn SSNV veitir ár hvert viðurkenninguna Byggðagleraugun til ráðuneytis eða stofnunar sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa/verkefna í landshlutanum eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans. Er viðurkenningunni ætlað að hvetja forsvarsmenn stofnana til að horfa með “byggðagleraugunum” á verkefni sinna eininga og nýta þau tækifæri sem gefast til flutnings starfa/verkefna á landsbyggðina í samræmi við áherslur byggðaáætlunar.

Stjórn SSNV velur þann aðila sem viðurkenninguna hlýtur ár hvert og er viðurkenningin afhent á ársþingi samtakanna.

- - - -

Frétt tekin af vef SSNV.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir