Endurskoða á fjárhagsáætlun í apríl
Byggðaráð Skagafjarðar hefur ákveðið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins sem væntanlega verður samþykkt síðar í vikunni verði endurskoðuð fyrir lok aprílmánaðar. Markmið endurskoðunarinnar verður að skila nýrri áætlun með jákvæðu veltufé frá rekstri.
Var sveitarstjóra og sviðsstjórum falið að hefja þá vinnu nú þegar. Markmið byggðarráðs er að ná hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins án þess að skerða þjónustu. Meðal aðgerða sem sveitarstjórn hefur nú þegar samþykkt er að stofnunum og félögum í eigu sveitarfélagsins sé óheimilt að ráða í störf sem losna án samþykktar byggðaráðs. Þá leggur byggðaráð sérstaka áherslu á að beina framkvæmdum, innkaupum oþh. til aðila innan héraðs og skorar á fyrirtæki og einstaklinga í sveitarfélaginu að gera slíkt hið sama. Byggðarráð þakkar starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þann árangur sem náðst hefur við hagræðingu í áætlunarvinnunni á milli umræðna, en ítrekar mikilvægi þess að enn frekari árangur náist í þeirri vinnu sem framundan er.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.