Endurreisn í íslenskum þjóðarbúskap og framþróun samfélagsins

Eftirfarandi skrif er útdráttur úr því skjali sem stjórn Vinstri grænna leggur fyrir flokksráðsfund flokksins í dag.

Íslenskt samfélag stendur nú á tímamótum eftir efnahagshrun og skipbrot þeirra frjálshyggjustefnu sem hér hefur verið rekin undanfarin 17 ár. Nú tekur við nýtt tímabil og þjóðin þarf að taka mikilvægar ákvarðanir. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að þjóðin eigi val um að halda áfram á sömu braut eða velja sér aðra framtíð og breytt gildismat. Við erum bjartsýn á að framtíðin verði okkur gjöful með  hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, félagshyggju, kvenfrelsis og friðarstefnu að leiðarljósi. Nú þurfum við sem aldrei fyrr að sameina kraftana, vera bjartsýn og hafa kjark og óbilandi trú á okkur sjálf og framtíðina.
Þjóðin kallar nú eftir breyttum vinnubrögðum: Opnum og lýðræðislegum vinnubrögðum, heiðarleika, réttlæti og gagnsærri stjórnsýslu og ákvarðanatöku í hvívetna. Með slík vinnubrögð að leiðarljósi eigum við að vinna saman að endurreisn íslensks samfélags sem verður að byggjast á jöfnuði, jafnrétti,  lýðræði, fjölbreyttu atvinnulífi og sjálfbærri þróun.
Helstu aðgerðir á næstunni:
- Boðað verði til kosninga.
- Sett verði þak á hækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og vaxtabætur hækkaðar.
- Stöðvuð verði öll nauðungaruppboð næstu 2-3 mánuði í það minnsta.
- Umtalsverðu viðbótarfjármagni verði strax veitt til sveitarfélaganna.
- Opinberum bönkum og lánastofnunum verði gert að styðja atvinnufyrirtæki gegnum yfirstandandi erfiðleika með skuldbreytingum, nauðsynlegri rekstrar- eða endurfjármögnun.

Helstu verkefni nýrrar ríkisstjórnar:
• Lýðræði: Styrkja þarf lýðræðið með markvissum ráðstöfunum – við þurfum allsherjar lýðræðisvæðingu. Þar má nefna breytingar á stjórnarskrá til að tiltekinn hluti almennings geti krafist þingkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslu. Ennfremur þarf að endurskoða kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag. Styrkja þarf stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu og stöðu stjórnarandstöðu gagnvart ríkisstjórn og efla lýðræðislegt stjórnarfyrirkomulag hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum. Vinstri-græn eru andvíg aðild að ESB en framtíðarfyrirkomulag tengsla Íslands og ESB þarf að ákveða á lýðræðislegan hátt í kjölfar vandaðrar og upplýstrar umræðu.
• Samfélag: Tryggja þarf hækkun atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta og vaxtabóta. Virkja þarf allar stofnanir samfélagsins til að taka þátt í endurreisn samfélagsins og styrkja þarf sérstaklega stöðu ungmenna og ungs fjölskyldufólks.
• Efnahags- og ríkisfjármál: Dreifa þarf skattbyrðinni á réttlátari hátt og skera um leið niður ríkisútgjöld, m.a. með sparnaði í rekstri stofnana, með því að skera niður hernaðarútgjöld og utanríkisþjónustu og með því að lækka laun æðstu ráðamanna og fella úr gildi eftirlaunalög byggð á sérréttindum. Breikka þarf tekjustofna sveitarfélaganna til að efla sjálfstæði þeirra og sjálfsforræði. Ganga þarf út frá því að halli á ríkissjóði og sveitarfélögum sé óhjákvæmilegur á meðan á kreppunni stendur. Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.
• Atvinna: Efla þarf sjálfbæra framleiðslustarfsemi og verðmætasköpun í atvinnulífinu. Meðal þeirra atvinnugreina sem þarf sérstaklega að leggja áherslu á eru sjávarútvegur, landbúnaður og matvælaiðnaður í heild sinni, ásamt ferðaþjónustu og útflutningsiðnaði. Þar að auki ber sérstaklega að styðja við smáfyrirtæki í umhverfisvænum rekstri, sprotafyrirtæki sem byggjast á nýsköpun og hátækni.
• Umhverfi: Leggja þarf sjálfbæra þróun til grundvallar á öllum sviðum þjóðarbúsins og hafa hana að leiðarljósi í allri áætlanagerð ríkisins, hvort sem er í umhverfismálum, efnahagsmálum eða samfélagsmálum. Náttúruauðlindir verði sameign allra landsmanna og þær nýttar í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Standa þarf við skuldbindingar Íslendinga í loftslagsmálum.
• Menning og menntun: Skóla og rannsóknarstofnanir þarf að efla og mæta þörfinni fyrir aukna og fjölbreytta menntun og rannsóknir. Ríkisútvarpið þarf að njóta öruggs rekstrarumhverfis sem einn hornsteina lýðræðislegrar og upplýstrar umræðu. Lánasjóð íslenskra námsmanna á að stórefla og taka upp mánaðarlegar greiðslur í stað yfirdráttarkerfisins. Rannsóknarstofnanir og skólar eiga að taka þátt í nýsköpunaraðgerðum og nýsköpunaráætlunum. Menning getur orðið ný útflutningsgrein og efla þarf uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu.
• Kvenfrelsi og jafnrétti: Óhjákvæmilegt er að endurreisn íslensks þjóðarbúskapar grundvallist á jafnrétti kynja og kvenfrelsi. Skera þarf upp herör gegn kynbundnum launamun. Jöfn þátttaka kynjanna á að vera grundvallarregla á öllum sviðum og lögfesta á kynjakvóta, kynjafjárlög og kynjaþjóðhagsreikninga. Vinna þarf gegn kynbundnu ofbeldi, t.d. með því að varpa ábyrgð á ofbeldinu þangað sem hún á heima.
•  Utanríkismál: Móta þarf nýja, sjálfstæða utanríkisstefnu með það að markmiði að stuðla að friði og vinna gegn styrjöldum, vígvæðingu og hvers kyns hernaðarátökum. Ný ríkisstjórn verður að byggja utanríkisstefnu sína á virðingu fyrir mannréttindum og aðstoð við nauðstaddar þjóðir. Öll útgjöld til hermála ber að skera niður og ratsjárkerfið á einvörðungu að þjónusta flugumferðar-stjórn . Friðlýsa ber Ísland fyrir kjarnorku og eiturefnavopnum. Hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB.
• Samskipti við aðrar þjóðir: Gera þarf sérstaka áætlun um hvernig Ísland hyggist snúa vörn í sókn hvað varðar þann stórfellda skaða sem orðinn er á orðspori okkar erlendis. Móta ber áætlun um Ísland sem griðastað þar sem landið  verður skipulega boðið fram sem vettvangur fyrir sáttaferli og umræður. Ísland þarf áfram að leggja sitt af mörkum til neyðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Aðgerðir Breta gegn Íslendingum ætti að kæra og rekja til enda fyrir dómstólum, bæði beitingu hryðjuverkalaga og þær aðgerðir sem kollsigldu Kaupþingi.
• Dómsmál, löggæsla og almannavarnir: Ný ríkisstjórn á fyrst og fremst að leggja áherslu á öryggi almennra íslenskra borgara og viðbrögð við raunverulegum hættum sem að Íslendingum steðja, svo sem vegna náttúruhamfara og efnahagshamfara . Hafna ber öllum tilburðum í þá átt að Íslendingar taki á sig útgjöld vegna hernaðar eða þvælist í hernaðartengdum verkefnum. Styrkja á björgunarsveitir og sjálfboðasamtök til að sinna starfi sínu.
• Sveitarfélögin: Sameiginlegt verkefni hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, er að standa vörð um hag almennings. Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki í endurmótun samfélagsins og mikilvægi þeirra við uppbyggingu og endurmat er ótvírætt í samstarfi við íbúa, félagasamtök og hagsmunaaðila. Sveitarfélögin þurfa að taka þátt í ákvörðunum hins opinbera og þarf sá farvegur að vera skýr. Tekjustofna sveitarfélaganna þarf að endurskoða í heild með hliðsjón af vaxandi hlutverki þeirra í endurmótun og eflingu velferðarsamfélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir