Endurgreiða ber virðisaukaskatt af refa og minkaveiðum
Ríkið innheimtir virðisaukaskatt af veiðum á ref og mink, en hefur á sama tíma dregið úr framlögum sínum vegna þessara veiða og er raunar algjörlega hætt að styðja við refaveiðar, samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra. Í rauninni eru þessar veiðar því að verða eiginlegur tekjustofn fyrir ríkissjóð, í stað þess að styðja við þetta verkefni sem er eðli málsins samkvæmt augljóslega samfélagslegt verkefni.
Þó svo að refa og minkaveiðar hafi verið á forræði sveitarfélaganna hafa þær notið stuðnings ríkisins um langt árabil. Fyrir því eru margvísleg rök. Hér er um að ræða mál af þeim toga að ljóst er að ríkið hlýtur að hafa að því atbeina. Kostnaðurinn er mikill og fer í rauninni vaxandi. Ljóst er og að hann leggst mjög misjafnlega á sveitarfélög.. Landmikil og fámenn sveitarfélög verða þannig harðast úti vegna þessa og dæmi eru um að kostnaður slíkra sveitarfélaga sé umtalsverður hluti útgjalda þeirra. Af því leiðir vitaskuld, að fjármuni skortir hjá þessum sveitarfélögum til annarra lögbundinna viðfangsefna, sem getur því leitt til lakari þjónustu og verri fjárhags.
Þannig yrði tryggt að þau nytu einhvers stuðnings við veiðarnar, jafnvel þó fjárframlögin yrðu skorin niður.
Vegna þessa og í ljósi þess að stuðningur til þessa málaflokks hefur dregist svo saman sem raun ber vitni um, lagði ég fram frumvarp á 139 löggjafarþingi sem fól í sér að sveitarfélögin fengju virðisaukaskattinn endurgreiddann.
Þessi hugmynd fékk mjög góðan hljómgrunn á meðal bænda og sveitarfélaga og fjölmargar ályktanir málinu til stuðnings voru sendar þinginu. Því miður var málið hins vegar ekki afgreitt sem lög frá Alþingi. Og umhverfisráðherra lýsti sig beinlínis andsnúinn því. Þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum stóðu þá að málinu og ljóst af umfjöllun að það á mikinn stuðning á Alþingi.
Ég hef nú lagt fram fumvarpið að nýju. Sjá, http://www.althingi.is/altext/141/s/0129.html
Því verður ekki trúað að mál þetta fái ekki brautargengi. Það er borið fram af þingmönnum úr þremur flokkum, Sjálfstæðisflokki,. Framsóknarflokki og Samfylkingu. Málið nýtur stuðnings bænda, sveitarfélaga og annarra þeirra sem það varðar sérstaklega. Hér er mikið í húfi, fyrir lífríkið, landbúnaðinn og sveitarfélögin, ekki síst þeirra sem búið hafa við mestan hlutfallslegan kostnað af þessu verkefni sem við blasir að vinna þarf.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.