Elskar að kenna í listavali í Árskóla

Ásta með barnabarnið, Jóhann Rafn, í skírnarkjólnum.
Ásta með barnabarnið, Jóhann Rafn, í skírnarkjólnum.

Ásta Búadóttir býr á Sauðárkróki, er alin upp á Hvalnesi á Skaga, en flutti tvítug til Sauðárkróks. Bjó í fjögur ár á Höfn í Hornafirði, þar sem hún hóf sinn búskap, en flutti aftur í Skagafjörðinn. Árið 1991 flutti hún til Reykjavíkur í nám, en kom svo aftur eftir námið og hefur verið í Skagafirðinum síðan. Hún er matreiðslumeistari og kennari í Árskóla.

Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?

Ég hef alla tíð haft áhuga á öllu handverki og er ég alltaf með eitthvað á prjónunum, oftast tvo til þrjá hluti í einu.Ég prjóna mikið fyrir framan sjónvarpið og á ferðalögum. En ég er ekki bara að prjóna. Þessa dagana er ég t.d. að búa til sápur, samhliða því að prjóna. Móðir mín var mikil handavinnukona og er ég alin upp við að allt var heimagert prjónað og saumað á okkur systurnar. Ég fór í húsmæðraskóla á Laugarvatn þegar ég var 17 ára. Það var mjög góður skóli og lærði ég ótrúlega mikið. Það er svo gaman að kynna sér hvað allt hefur breyst frá því að mamma var í húsmæðraskóla árið 1947 til dagsins í dag. Þá voru margir hlutir öðruvísi. Matreiðslubókin sem kennd var í skólanum heitir Kvennafræðarinn og var gefin út 1911. Þegar mamma var í skólanum á Hverabökkum 18 ára, var stuðst við þessa bók, hvernig skyldi elda mat, hugsa um heimilið og svo eigin líkama. Þar segir: „Það er skylda hvers eins, sem komin er til vits og ára, að þrifa sig vel. Á hverjum morgni skal þvo sér um andlit, háls og hendur, og greiða hár sitt og kemba. Nærfötum skal skipta einu sinni í viku og helzt um leið að þvo allan líkamann.“ Bara snilld að lesa gamlar bækur frá þessum tíma.

Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust?

Að prjóna, þó þykir mér allt handverk skemmtilegt og ég saumaði mikið hér áður fyrr en er eiginlega hætt því, svo elska ég að kenna í listavali í Árskóla þar sem ég fæ að leika mér með börnunum.

Hverju ertu að vinna að um þessar mundir?

Ég er að prjóna lopapeysur og búa til sápur.

Hvar færðu hugmyndir?

Ég fæ gjarnan innblástur úr bókum og á netinu, elska t.d. Pinterest.

Hvaða handverk ertu ánægðust með?

Ég saumaði skírnarkjól þegar ég var í húsó sem ég er ótrúlega ánægð með, hann er bú-inn að vera mikið notaður bæði af fjölskyldunni og líka af öðr-um. Er búin að gera svo mikið um ævina, langar samt að nefna að ég saumaði fullt af kjólum fyrir félagsskap í vinnunni sem heitir LæÐurnar – það var ótrúlega skemmtilegt verkefni.

Er eitthvað sem þú vilt bæta við?

Ég á erfitt með að sjá fyrir mér lífið án þess að ég sé ekki með einhverja handavinnu í gangi, oftast er ég þó að prjóna. Ég er líka í svo skemmtilegum félagsskap sem heitir Alþýðulist. Fyrir þá sem ekki vita hvað Alþýðulist er, þá er þetta félagskapur í Skagafirði sem var stofnaður árið 1995 og er fyrir alla þá sem áhuga hafa á handverki. Ég mæli með að allir skrái sig í þennan skemmtilega félagsskap.

Áður birst í tbl. 19 Feykis 2022.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir