„Ekki nóg að mæta bara í hnakknum“
Hofsósingurinn góðkunni, Gísli Einarsson, hefur leitt lið Landans á RÚV til margra ára og er einkar laginn við að þefa uppi forvitnilegar hliðar mannlífsins. Nú á dögunum var hann staddur í Skagafirði, nánar tiltekið í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki, þar sem nemendur FNV héldu svokallað Fjörmót en þeir þurfa að sjá um allt er viðkemur mótshaldinu, bæði utan vallar og innan.
„Þetta er bara mjög gott, og góð lífsreynsla upp á komandi tíma því ef maður ætlar að vera eitthvað í hestum þá er sjálfboðavinna svo ótrúlega stór hluti af hestamennskunni," segir Ingiberg Daði Kjartansson, nemandi á hestabraut í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, í viðtali við Landann. „Við þurftum að ráða dómara, redda styrkjum, útvega vallarþuli og skrifara, redda verðlaunum, sópa gólfið, þrífa klósettin og allt annað sem þarf til að hægt sé að halda mót. Það er mjög hollt, held ég, að sem flestir átti sig á því að það er ekki nóg að mæta bara í hnakknum, svona mót verður ekki til af sjálfu sér," segir Ingiberg.
Til að valda ekki alvarlegum ruglingi þá skal tekið fram að Gísli er ættaður úr Lundarreykjadal í Borgarfirði, býr í Borgarnesi, en hann var sannarlega eitt sinn verslunarstjóri KS á Hofsósi og spilaði fótbolta með Neista.
Hægt er að horfa á innslag Landans á vef RÚV með því að smella hér >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.