Ekki allir fæturnir undir Stólunum í fjórða leiknum
Lið Tindastóls gat tryggt sér sæti í undanúrslitum Subay-deildarinnar í gærkvöld þegar liðið okkar mætti Keflvíkingum suður með sjó í fjórða leik liðanna. Nokkrir máttarstólpar liðsins voru hins vegar ekki í stuði og það er bara ekki boði á þessu stigi körfuboltavertíðarinnar. Með góðri baráttu tókst liði Tindastóls að snúa vondri stöðu við, náðu muninum í tvö stig, 75-73, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en þá sprakk liðið á limminu og Keflvíkingar sigldu heim sigri, 91-76, og tryggðu sér þar með oddaleik í Síkinu á sjálfan páskadag.
Það er kannski óþarfi að vera toga föstudaginn langa eitthvað meira en nauðsynlegt er og fara því hratt yfir sögu. Leikurinn var jafn framan af en heimamenn þó með frumkvæðið. Staðan 21-19 að loknum fyrsta leikhluta en um miðjan annan leikhluta voru heimamenn komnir með tíu stiga forskot en Mustapha Heron átti skínandi leik á þessum kafla. Munurinn var þrettán stig í hléi, 47-34.
Keflvíkingar voru áfram betra liðið í byrjun síðari hálfleiks og voru 16 stigum yfir, 55-39, um miðjan þriðja leikhluta. en tólf stigum munaði að leikhlutanum loknum. Baldur Þór reyndi að rugla Keflvíkinga í kollinum með því að hleypa leiknum upp í fjórða leikhluta og það gaf góða raun til að byrja með. Hannes Ingi minnkaði muninn í 67-63 með þristi eftir tvær og hálfa mínútu og Bess bætti tveimur stigum við og minnkaði í tvö stig. Heimamenn svöruðu með tveimur þristum en Hannes og Bess endurtóku leikinn og tveimur stigum munaði þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Þar með lauk þó eftirförinni, Stólarútan hrökk úr gír og Keflvíkingar stigu kaggann í botn og brunuðu inn í sólarlagið með sigur í farteskinu og páskaeggið hans Hjalta þjálfara glansandi fremst á húddinu.
Fimmti leikurinn verður spilaður í Síkinu á páskadag kl. 19:15 og nú eru ekkert fleiri sénsar – nú er að duga eða drepast og bara spurning um hvort liðið er hungraðra í að komast áfram. Liðin er ólík en gríðarlega jöfn og nú þurfa okkar menn á því að halda að stuðningsmenn gefi sig alla með þeim!
Í gær voru Bess og Badmus sterkastir í liði Tindastóls; Bess gerði 24 stig og tók sex fráköst en Badmus gerði 22 stig. Axel skilaði ellefu stigum sem er væntanlega samningsbrot og Arnar var með sama stigafjölda. Hannes Ingi var með sex stig og Vrkic tvö og þá er nú allt upptalið. Pétur, Vrkic og Siggi fundu sig ekki að þessu sinni en það er vonandi að þeir fylli á tankinn fyrir páskadag og mæti til leiks með túrbóið á. Heron átti skínandi leik fyrir lið Keflavíkur og gerði 27 stig, Milka var með 15 og Hörður Axel og Valur Orri 14 hvor.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.