Ein stefna í flugvallarmálum!

Staða Reykjavíkurflugvallar hefur verið talsvert í umræðunni eftir að opinberaðir voru samningar um sölu ríkisins til Reykjavíkurborgar á 112.000 fermetrum í Vatnsmýrinni og að þar eigi að rísa 800 íbúðir. Enn ótrúlegra var að sjá að fulltrúar ríkisstjórnarinnar og borgarstjórnarmeirihlutans skuli hafa valið að skrifa undir samningana í flugstöðvarbyggingunni í Reykjavík.

Framsókn sagði strax að um væri að ræða mjög alvarlegar fréttir fyrir landsbyggðina og landsmenn alla. Það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni er einfaldlega eitt af stærstu hagsmunamálum fólks sem býr úti á landi og þarf nauðsynlega á góðum flugsamgöngum að halda við höfuðborgina.

Framsókn vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni!

Þetta sýnir hver pólitískur vilji ýmissa stjórnmálaflokka er í þessu máli og ótrúlegt að fylgjast með því hvernig menn komast upp með hafa eina stefnu í Reykjavík og aðra úti á landi. Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýrinni er gríðarlega mikilvæg fyrir landið allt. Stór hluti af stjórnsýslu landsins er í Reykjavík og nálægðin við sjúkrastofnanir er mjög mikilvæg. Þetta er óumdeilanlega fyrsta skrefið í því að flytja flugvöllin úr Vatnsmýrinni og það verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum.

Þingmenn og frambjóðendur Framsóknar eru sammála um mikilvægi þess að flugvöllurinn sé áfram í Vatnsmýrinni og hafa ekki tvær stefnur í þessu máli líkt og tíðkast hjá öðrum stjórnmálaflokkum. Stefnan er skýr og hún var ítrekuð á nýafstöðnu flokksþingi.

Stefna Framsóknar í flugvallarmálum: “Flugvöllurinn í Reykjavík verði áfram í Vatnsmýrinni sem hornsteinn fyrir samgöngur landsmanna, vegna almennings- og öryggishagsmuna”.

Þetta getur ekki orðið mikið skýrara!

Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður Framsóknarflokksins. Skipar 2. sæti á framboðslista Framsóknar í NV-Kjördæmi.

Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur. Skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður

Vigdís Hauksdóttir, alþingismaður. Skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík suður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir