„Ég veit að við getum náð árangri og hlakka til áskorunarinnar“
Feykir sagði frá því fyrr í vikunni að Murielle Tiernan skrifaði undir nýjan samning við Tindastóls sem og Jackie Altschuld og Amber Michel. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Mur sem hefur þegar spilað þrjú sumur með liði Tindastóls, fyrst í 2. deild, svo tvö sumur í 1. deildinni og á næsta ári í efstu deild. Hún á stóran þátt í velgengni liðsins og hefur til dæmis skorað 77 mörk í þeim 53 leikjum sem hún hefur spilað með Stólastúlkum.
Feykir byrjaði á að spyrja Mur hvort hún hefði verið ánægð með frammistöðu Stólastúlkna og spilamennsku í sumar. „Ég var mjög ánægð með liðið okkar í sumar. Allar stelpurnar sem hafa verið með síðan 2018 hafa vaxið gífurlega, það hefur verið mjög gaman að fylgjast með því og ég veit að þær munu halda áfram að vaxa þegar við undirbúum okkur fyrir að spilla í efstu deild. Þá eru leikmennirnir sem hafa bæst í hópinn einnig mjög mikilvægir en þeir hjálpa til við að gera liðið okkar sterkara og sterkara. Ég tel að lið Tindastóls hafi styrkst í sumar, frá fremsta mann til þess aftasta, og það sýndi sig í þeim árangri sem við náðum.“
Ertu spennt að spila fyrir Tindastól í Pepsi Max deildinni? -„Ég er mjög spennt að spila með liði Tindastóls í Pepsi Max deildinni næsta sumar. Ég veit að þetta hefur verið markmið margra stúlkna á Króknum í langan tíma og ég er svo ánægð að hafa tekið þátt í að láta drauminn rætast og vil halda áfram að gera allt sem ég get til að hjálpa þessu liði að ná árangri. Ég er spennt fyrir því að vinna með liðinu í vetur og undirbúa mig fyrir mjög erfitt tímabil framundan þar sem við verðum aftur á byrjunarreit og berjumst um að sanna okkur. Ég veit að við getum náð árangri og hlakka til áskorunarinnar.“
Er allt í lagi í Ameríku? „Það var óneitanlega óvenjulegt að koma heim að þessu sinni. Ástandið vegna COVID er mun verra hér en það er á Íslandi en varúðarráðstafanir mun minni. Það tekur á taugarnar að vera innan um og í nálægð við svona margt fólk þar sem smit eru algeng. Það er líka áskorun að vera heima og geta ekki hitt eða haft samskipti við vini og fjölskyldumeðlimi á eðlilegan hátt. Það verður líklega erfiðasti hlutinn fyrir mig. Ég reyni að gera mitt besta í að passa upp á mig og er þakklát fyrir tímann sem ég fæ með fólkinu mínu hér.“
Hvernig er veðrið? „Veðrið hefur verið mjög gott þessa fyrstu daga hér heima, svolítið hlýrra en hentar mér (22 stiga hiti) en það hefur verið gott að geta setið úti og heimsótt vini.“
Hvernig var tíminn ykkar á Íslandi á þessum undarlegu tímum sem við lifum? -„Ég, Jackie og Amber töluðum stöðugt um það í sumar hvað okkur fannst við vera heppnar að geta flúið óreiðuna sem var í gangi í Ameríku og lifað í litluíslensku veröldinni okkar. Ég var persónulega mjög ánægð og átti frábært sumar, ég ferðaðist ekki eins mikið um landiðog ég hef gert undanfarin ár en við nutum alls sem Saudarkrokur og Skagafjörður höfðu upp á að bjóða. Vonandi höfum við meiri tíma og frelsi á næsta ári til að halda áfram að skoða okkur um og ferðast, sem ég elska að gera. Amber á enn eftir að sjá mikið af Íslandi og það er jafnvel enn sumt sem við Jackie eigum eftir að sjá.“
Að lokum, seldust allir Tindastóls-steinarnir sem þið máluðuð? -„Já við seldum alla steinana sem við höfðum málaðog nokkra til! Síðasta mánuðinn á Íslandi fengum við mikinn frítíma þar sem knattspyrnutímabilið var svo lengi í Covid-pásu. Við byrjuðum að mála okkur til skemmtunar og byrjuðum síðan að mála steina og ákváðum að það gæti væri skemmtileg leið fyrir okkur til að leggja okkar af mörkum til fjáröflunar klúbbsins! Þetta gekk miklu betur en við reiknuðum með svo við fórum í nokkrar aukaferðir á ströndina til að safna fleiri steinum og eyddum nokkrum dögum í að mála. Við erum mjög þakklátar bæjarbúum og stuðningsfólki Tindastóls fyrir stuðninginn,“ segir Mur að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.