Efnilegir lagahöfundar í Húnaþingi komnir í úrslit Málæðis

Valdi og liðsmenn húsbandanna í góðum gír. MYND AF SÍÐU GRUNNSKÓLA OG TÓNLISTARSKÓLA HÚNAÞINGS VESTRA
Valdi og liðsmenn húsbandanna í góðum gír. MYND AF SÍÐU GRUNNSKÓLA OG TÓNLISTARSKÓLA HÚNAÞINGS VESTRA

List fyrir alla hefur staðið fyrir listatengdum verkefnum í grunnskólum á Íslandi síðustu ár. Í gær fékk hópur stúlkna í Grunnskóla og Tónlistarskóla Húnaþings vestra þær fréttir að lag sem þær höfðu samið og sent inn í keppni á vegum Listar fyrir alla hafði verið valið sem eitt af þremur lögum sem keppa til úrslita.

Það var Valdimar Gunnlaugsson, tónlistarstjóri húsbandsins í skólanum, sem fékk skemmtilega upphringingu frá Hörpu Rut Hilmarsdóttur, sem er ein þeirra sem er í forsvari fyrir List fyrir alla, með þessum fínu fréttum.

Þannig er mál með vexti að List fyrir alla og Bubbi Morthens tóku höndum saman og buðu unglingum í grunnskólum landsins að taka þátt í nýju íslenskuverkefni, Málæði, sem er ætlað að hvetja ungt fólk til að tjá sig á íslensku í tali og tónum. Skilaboðin eru þau að tungumálið tilheyri okkur öllum – það megi leika sér með það. Valnefnd, sem stýrt var af Bubba, valdi þrjú lög til frekari vinnslu en afraksturinn verður opinberaður á RÚV í Viku íslenskunnar 11.–16. nóvember 2024.

Vigdís Hafliða og Vignir Snær mæta norður

Það voru snillingarnir Ronja, Rakel, Íris, Valdís, Freydís og Ísey sem sömdu lag og sendu inn í keppnina og í gær kom í ljós að lagið þeirra var eitt þeirra þriggja laga sem valið hefur verið til útsetningar. „Því mun hér í næstu viku koma flokkur valinkunnra einstaklinga til að vinna með stelpunum að útsetningu lagsins. Hinu Húsbandinu er einnig boðið að taka þátt í þeirri vinnu en í vetur eru tveir hópar starfandi við skólann. Þau sem munu heiðra okkur með nærveru sinni í næstu viku eru Vigdís Hafliðadóttir, söng- og sjónvarpskona, Vignir Snær Vigfússon, gítarleikari Írafár, ásamt tökuliði frá RÚV.

„Við erum ekkert eðlilega stolt af Valda og stelpunum og getum ekki beðið eftir að sjá þau uppskera á næstu vikum. Til hamingju öll, þið eruð frábærar fyrirmyndir, við erum óendanlega stolt af ykkur og samgleðjumst með ykkur. Við munum auglýsa vel þegar við vitum hvenær þátturinn verður sýndur á RÚV,“ segir í frétt á vef skólans.

Húsbandið er valfag í skólanum

Til útskýringar þá spurði Feykir Valda, sem er kennari við skólann auk þess að vera í Slagarasveitinni, hvaða húsbönd væri eiginlega verið að tala um. Hann tjáði Feyki að Húsbandið væri valfag í skólanum fyrir nemendur á unglingastigi. „Þá eru krakkarnir að skrá sig í að vera í hljómsveit. Þar læt ég krakkana spila á allskonar hljóðfæri, hvort sem þau kunna á það eða ekki! Þau koma þá á skólatíma á hljómsveitaræfingar.“

Húsböndin eru tvö í skólanum og er Valdi í forsvari fyrir bæði böndin. Hann segir að þetta nám sé líka orðið val í Tónlistarskólanum þannig að sami hópur getur verið þar líka ef krakkarnir eru í Tónlistarskólanum.

Hversu spennandi og skemmtilegt er þetta!?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir