Dreymir um gervigrasvöll í Húnabyggð :: Lee Ann í mörgum verkefnum fyrir Hvöt
Lee Ann Maginnis var á dögunum ráðin verkefnastjóri í afmörkuð verkefni af aðalstjórn Ungmennafélagsins Hvatar á Blönduósi samfara því að hafa einnig verið ráðin framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Hvatar. Mörg spennandi verkefni sem þarf að sinna.
„Þetta er í raun tvískipt starf. Hvað snýr að aðalstjórninni þá er ég í þessum töluðu orðum að skrifa skýrslu um uppbyggingu íþróttamannvirkja. Íþróttafélögin á svæðinu voru beðin um að skila tillögum til íþrótta,- tómstunda- og lýðheilsunefndar um uppbyggingu og endurbætur á íþróttamannvirkjum í Húnabyggð en fyrirhugað er að sveitarfélagið geri áætlun til næstu fimm til tíu ára um uppbyggingu. Við erum heppin í Húnabyggð að hér er framboðið mikið í íþróttum og mikilvægt að sveitarfélagið styðji vel við íþróttafélögin á svæðinu en alltaf má gera betur. Sveitarfélögin hafa staðið vel við íþróttafélögin en uppbyggingin hefur kannski ekki verið í takt við fjölgun félaga og deilda og fjölda iðkenda. Íþróttahúsið er sprungið og aðstaða til útiæfinga allt árið um kring er ekki góð. Það er reyndar komið nýtt gras á sparkvöllinn við grunnskólann sem er þó mikill kostur,“ segir Lee Ann.
Segir hún að næsta verkefni verði að gera Ungmennafélagið Hvöt að fyrirmyndarfélagi ÍSÍ en því fylgi töluverð skýrsluskrif og samskipti við stjórnir deildanna. Fjórar deildir eru undir aðalstjórn: knattspyrna, körfubolti, frjálsar og sund.
„Verkefnin mín hjá knattspyrnudeildinni í augnablikinu eru svo þessi hefðbundnu haustverkefni, ganga frá skráningum í Sportabler, samskipti við foreldra og iðkendur, skipuleggja fjáraflanir og skipuleggja mótahald vetrarins. Um 80 iðkendur eru hjá knattspyrnudeildinni í vetur og nóg um að vera. Eitt af mínum verkefnum er einnig að kanna hvort grundvöllur sé fyrir áframhaldandi samstarfi í yngri flokkum Hvatar, Kormáks, Fram og Tindastóls. Svo eru það Smábæjaleikarnir sem fara fram þriðju helgina í júní og skipulagningin á þeim er að hefjast.
Í haust hófu svo störf hjá deildinni tveir nýir þjálfarar, Erla Jakobsdóttir og Aco Pandurevic, en þau eru reynslumikil í þjálfun og hægt að segja að haustið fari vel af stað.“
Hvöt og Kormákur náðu samkomulagi fyrir tímabilið að halda úti sameiginlegu liði, telurðu að það samstarf haldi áfram?
„Já, ég sannarlega vona það. Það hefur átt sér stað töluverð uppbygging síðustu ár og það verður gaman að sjá liðið að ári aftur í þriðju deildinni. Sumarið reyndist okkur erfitt, mikið um meiðsli og þess háttar en hægt er að draga þó nokkurn lærdóm af sumrinu og laga það sem þarf að laga fyrir næsta keppnistímabil. Það er töluverður munur á að spila í þriðju deildinni eða þeirri fjórðu en vonandi skilar reynslan einhverju. Það var líka gaman að sjá unga Hvatarmenn skila sér aftur heim og spila undir merkjum Kormáks Hvatar. Yngri leikmenn voru einnig að fá tækifæri með liðinu og góð reynsla fyrir þá að fá að æfa með meistaraflokki og taka þátt og sjá hvernig umgjörðin er í kringum liðið. Það er líka dýrmætt fyrir yngri flokkana að hafa eitthvað að stefna að og eiga fyrirmyndir í leikmönnum meistaraflokks. Yngri flokkarnir eru duglegir að mæta á leiki meistaraflokks og taka þátt t.d. með því að sækja bolta og þessháttar.“
Þá átti Hvöt einnig í samstarfi við Tindastól vegna yngri flokka. Hvernig fannst þér það samstarf koma út og heldur þú að það henti félögunum á svæðinu?
„Ég hef ekki persónulega reynslu af samstarfinu og get því einungis byggt skoðun mína á skoðun annarra. Ég held að heilt yfir hafi samstarfið gengið vel, auðvitað er eitthvað sem má bæta og fínpússa en flestir foreldrar og iðkendur voru ánægðir með samstarfið.
Tindastóll býr yfir góðri aðstöðu sem gerir það mögulegt að spila úti allt árið um kring. Hin félögin á Norðurlandi vestra búa ekki yfir þessari aðstöðu og því gott fyrir okkur hin að hægt sé að samnýta aðstöðuna.“
Lee Ann bendir á að í samstarfi sé mikilvægt að iðkendur þekkist með nafni, viti hver spilar hvaða stöðu og að sameiginlegar æfingar fari reglulega fram. Vegalengdirnar á milli svæða séu þó töluverðar og þá sérstaklega fyrir Kormák og það geti reynst erfitt að halda úti sameiginlegum æfingum yfir háveturinn. Með samstarfi stækki æfingahópurinn og því líklegra að sem flestir fái æfingar og keppnisleiki við hæfi sem hentar þeirrar getu.
„Draumurinn er auðvitað sá að við fáum gervigrasvöll í Húnabyggð en það gerist kannski ekki á morgun en vonandi í náinni framtíð.,“ segir hún og bætir við: „Ég held líka að það sé mikilvægt að horfa á samstarfið til lengri tíma, síðasti samstarfssamningur var fyrir keppnistímabilið 2022 og ég held að það sé ekki nógu langt til að það reyni almennilega á samstarfið. Við þurfum að leggja áherslu á það að halda þessum krökkum á svæðinu og í liðunum hjá okkur og finna út úr því með hvaða hætti við gerum það sem best fyrir félögin og iðkendur.“
Lee Ann vill hvetja fólk til þess að taka þátt í störfum íþróttahreyfingarinnar því án stjórnarmanna, iðkenda, aðstandenda og annarra áhugasamra aðila er engin íþróttahreyfing. „Þetta er mjög vanmetið starf en mjög mikilvægt. Mörg íþróttafélög bjóða upp á allskonar námskeið, t.d. þjálfara- og dómaranámskeið og það má alltaf fjölga í stéttinni,“ segir hún í lokin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.