Donni vill læti á laugardaginn
„Nú næsta laugardag eftir tæpa viku spilar úrvalsdeildarlið Tindastóls gríðarlega mikilvægan leik við Fylki. Við erum lang minnsta samfélagið á bakvið efstu deildarlið í fótbolta og það er gríðarlegt afrek. Þetta er síðasti heimaleikur sumarsins og það er tækifæri til að taka allt á næsta stig, styðja af krafti og hjálpa til við að Tindastóll eigi áfram lið í efstu deild á Íslandi í knattspyrnu,“ segir Donni þjálfari Stólastúlkna í fótboltanum og biðlar til stuðningsmanna að fjölmenna á völlinn.
„Það er verið að vinna feikilega flott starf – starf til framtíðar. Við erum að berjast fyrir sæti okkar í efstu deild og stelpurnar leggja allt á sig fyrir framtíð félagsins. Við viljum vera í efstu deild áfram og þær gera allt sem þær geta til þess. Ég vil biðla til ALLRA að mæta á laugardaginn og hvetja stelpurnar til dáða. Endurvekjið stuðningssveitina og verum með læti¨“ segir Donni.
Lið Fylkis gerði sér lítið fyrir og lagði Stjörnuna í Garðabæ í gær mætir sem fyrr segir á Krókinn á laugardaginn og hefst leikurinn kl. 14:00. Ætli Stólastúlkur að halda sér upp þurfa þær helst að krækja í sigur því markatala Fylkis er betri en Tindastóls ef svo færi að liðin endi með jafn mörg stig. Tindastóll þarf því að enda með fleiri stig en Fylkir. Eins og staðan er nú er Tindastóll með 16 stig og Fylkir 13 þegar það á eftir að spila tvær umferðir í úrslitakeppni neðri deildar.
Donni bendir á að samkvæmt úttekt Morgunblaðsins fyrr í sumar er lið Tindastóls með næst flesta uppalda leikmenn sem hafa spilað í deildinni í sumar. Sem segir okkur að þetta er okkar lið – lið Norðurlands vestra – enda hópurinn skipaður, auk erlendra stúlkna, sprungulausum Króksurum, fyrirliða frá Brautarholti, tveimur topp táningum frá Skagaströnd, einni Sögu frá Hvammstanga og baráttujaxli frá Hofi í Vatnsdal.
Eiga þær ekki skilið að við mætum á völlinn?!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.