Della í Ljónagryfjunni
Tindastólsmenn fóru illa að ráði sínu þegar þeir mættu Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni suður með sjó fyrr í kvöld. Eftir frábæran fyrri hálfleik Stólanna komust heimamenn inn í leikinn strax í byrjun síðari hálfleiks, með aðstoð dómaranna, og þeir reyndust síðan sterkari á lokamínútum leiksins og unnu dýsætan sigur, 92–86.
Lið Tindastóls byrjaði leikinn frábærlega og leiddi 9-0 þegar þrjár mínútur voru búnar. Vörnin var fín og sóknarleikurinn gekk ágætlega. Staðan var þó 21-28 eftir fyrsta fjórðung og flautuþrist frá Pálma og þegar skammt var liðið af öðrum leikhluta var Pálmi stigahæstur á trégólfinu með 13 stig. Þá tók Chris Caird við keflinu og raðaði niður körfum. Njarðvíkingar fundu ekki taktinn á meðan flestar sóknir Stólanna enduðu með körfu, oft eftir glæsilegt spil. Caird átti síðan lokaorðið í hálfleiknum, svaraði 3ja stiga körfu frá Loga Gunnars í sömu mynt um leið og leiktíminn rann út. Nítján stiga munur í hálfleik, staðan 36-55.
Skömmu fyrir leikhlé fékk Hester sína þriðju villu, var talinn vera með leikaraskap þegar hann fékk Atkinson í sig. Eftir rétt um hálfa mínútu í síðari hálfleik fékk Hester fjórðu villuna eftir að dæmdur var ruðningur á hann og sú villa virkaði alveg út í hött. Þar með urðu Stólarnir að hvíla Hester og á meðan strákarnir náðu áttum minnkuðu Njarðvíkingar muninn í 48-55 – gerðu semsagt 12 stig í röð. Caird dró vagninn sóknarlega fyrir Stólana sem skoruðu nú grimmt af vítalínunni. Heimamenn, sem voru að leika af mun meira ákafa en í fyrri hálfleik, minnkuðu muninn í tvö stig, 61-63. Síðasta mínútan í þriðja leikhluta var ótrúleg. Fyrst minnkaði Jón Arnór muninn í 66-69 en Caird svaraði með þristi. Þá klikkaði Logi á 3ja stiga skoti þegar skammt var eftir, Björgvin náði boltanum og kastaði frá eigin vítateigslínu yfir allan völlinn og í spjaldið og niður um leið og flautan gall! Staðan 66-75 og staða Stólanna góð fyrir lokaátökin.
Caird jók muninn í 66-77 en síðan hrökk allt í baklás. Caird var nú hvíldur og Hester kom inn í staðinn fyrir hann. Stólunum gekk þó illa að nýta krafta hans í teignum og hófu að skjóta í gríð og erg utan 3ja stiga línunnar en það var bara ekki nokkur kjaftur að hitta. Pétur tók fimm 3ja stiga skot og ekkert fór niður. Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan þó 72-79 fyrir Tindastól. Næstu körfu Stólanna gerði Hester og staðan 79-82. Vilhjálmur og Atkinson gerðu næstu körfur fyrir Njarðvík og komu þeim yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar þrjár mínútur voru eftir. Hester jafnaði 83-83 en líkt og á móti KR fyrr í mánuðinum þá frusu Stólarnir á lokamínútunum, Caird setti niður einn þrist á meðan heimamenn gerðu níu stig.
Sárgrætilegur ósigur staðreynd. Caird var lang stigahæstur Stólanna í kvöld með 39 stig! Pálmi og Hester voru síðan með 13 stig hvor. Pétur var með 10 stig og sjö fráköst en 3ja stiga skotið hans hefur alveg gufað upp síðan í hálfleik gegn KR. Hann þarf að finna það aftur sem fyrst. Það er ekki ólíklegt að Stólarnir hafi saknað reynsluboltanna, Helga Margeirs og Svavars, en þeir lágu í flensu. Í liði heimamanna var Logi stigahæstur en allir byrjnarliðsleikmenn þeirra fóru yfir 10 stigin í leiknum. Eftir slakan fyrri hálfleik fóru skotin þeirra að detta niður á meðan það var aðeins Caird sem hitti hjá Stólunum.
Í viðtali eftir leikinn var Israel Martin þjálfari Tindastóls afar ósáttur við dómgæsluna og sagði hreinlega að sér finndist of oft upp á síðkastið sem Stólarnir spiluðu fimm gegn átta.
Það er ljóst að Stólarnir hafa ekki verið að spila nógu vel nú á nýju ári. Það hafa komið frábærir kaflar og síðan hreinlega hræðilegir kaflar. Nú er bara að finna taktinn aftur og áfram gakk eins og segir í kvæðinu. Næsti leikur er hér heima en Keflvíkingar koma í Síkið 2. febrúar. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.