Dalbæingar telja vorið verða seint á ferðinni
Á fundi Veðurklúbbs Dalbæjar þann fjórða apríl varð bjartsýni, eða kannski hitasýn, klúbbfélaga fyrir veðri mánaðarins á Norðurlandi ekki eins mikil og hún hefur verið það sem af er árinu, segir í skeyti spámanna. „Sjáum við fyrir okkur áframhaldandi umhleypingar en þó líklega óvenju mikla kuldatíð.“
Segja spámenn því líklegt að vorið verði seint á ferðinni þetta árið en umsjónarmenn skíðasvæða og vetrarunnendur geti þá glaðst yfir lengri vertíð.
„Spáin er núna að mestu leyti byggð á draumum og tilfinningu félaganna. En þar koma gráir hestar á hraðferð til dæmis við sögu ásamt því að missa nokkra fiska í Svarfaðardalsá,“ segir í skeytinu en að venju er kvatt með vísum:
Hart vor. Ljóðmæli eptir Jónas Hallgrímsson.
Hóla bítur hörkubál,
hrafnar éta gorið,
tittlingarnir týna sál;
tarna’ er ljóta vorið!
Apríl byrjar sjaldnast vel
villur vísar mönnum.
Okkur verður ei um sel
skilst það glamr í tönnum.
Finnst þar hæfa kjafti skel
festumst við í fönnum.
Höf. Bjór
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.