„Dagurinn var mjög góður en við stefnum á hefðbundinn öskudag að ári“
Kórónuveirufaraldurinn fer nú um eins og stormsveipur en vonast er til að þjóðin myndi hjarðónæmi áður en langt um líður. Það eru því ansi margir sem verða að gjöra svo vel að dúsa heima þessa dagana; sumir finna fyrir litlum einkennum en aðrir eru ekki svo heppnir. Ljóst er að flestir vildu vera án þessa vágests. En það var öskudagur í gær og þeir sem ekki komust út úr húsi en voru heima með börnin sín þurftu að láta reyna á þær gráu til að gera það besta úr stöðunni. Það virtist hafa tekist með ágætum hjá þeim hjónum, Gesti Sigurjóns, kennara við Árskóla, og Ernu Nielsen, starfsmanni leikskólans Ársala á Króknum.
Feykir rakst á nokkrar skemmtilegar myndir frá öskudeginum þeirra heima sem sjá mátti á Facebook og sendi nokkrar spurningar á Gest í kjölfarið.
Hvað er í gangi, eru allir á heimilinu með Covid? „Hér er ástandið þannig að sex fjölskyldumeðlimir eru með Covid. Krakkarnir fengu dálítinn hita fyrsta sólarhringinn en hafa svo verið eldspræk. Við foreldrarnir erum aðeins slappari en reynum að bera okkur vel.“
Hvernig var öskudagurinn á heimilinu, hvað var gert til að krydda daginn? „Í byrjun vikunnar varð okkur ljóst að börnin gætu ekki tekið þátt í öskudagsskemmtun eða farið í búðir að syngja. Þá fórum við að velta því fyrir okkur hvað við gætum gert í staðinn. Strákurinn talaði mikið um að fá að ,,slá köttinn úr tunnunni” og við ákváðum að setja upp eitthvað í þá veru hérna heima. Við settum sælgæti í kornflexpakka og pökkuðum í gjafapappír. Á sprengidag sáum við svo auglýsingu inni á facebook-síðunni Foreldrar í Skagafirði þar sem nokkrar konur buðust til að safna saman öskudagsgjöfum hjá fyrirtækjum bæjarins og koma þeim til barna sem væru föst heima. Við skráðum börnin okkar á lista og svo ákváðu allir hvað þeir ætluðu að vera á öskudeginum. Glimmerselurinn, glimmerpartýstelpan og skósveinninn tóku því á móti flottum björgunarsveitarmönnum sem færðu þeim gotterí frá fyrirtækjum bæjarins.“
Voru allir sáttir við nammið sem borið var í hús? „Börnin voru mjög ánægð með nammipokana sína. Við foreldrar dáumst að framtaki þessara kvenna og erum mjög þakklát öllum þeim sem réttu þeim hjálparhönd.“
Er hugmyndin að vera aftur heima næsta öskudag eða er gamla aðferðin betri? „Dagurinn var mjög góður en við stefnum á hefðbundinn öskudag að ári,“ segir Gestur að lokum.
Fólk og fyrirtæki ánægt með nammipokaverkefnið
Það voru þau Soffía Helga, María Dröfn, Raggí, Rakel Sturlu, Sigga Lilja, Veigar Þór, löggan og björgunarsveitin sem höfðu veg og vanda af því að sjá um skipta namminu sem safnaðist í ríflega 70 poka og koma þeim til þeirra sem biðu spenntir heima. Soffía segir að fyrirtækin hafi tekið mjög vel í að gefa nammi og mikill sjóður safnaðist. Hún segir að krakkarnir hafi allir verið mjög glaðir, sumir komu til dyranna klæddir í búning og sungu jafnvel fyrir þá sem báru út þó sumir væru kannski feimnari en aðrir.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá öskudegi Gests, Ernu og krakkanna og síðan myndir frá nammipokaverkefninu. Hægt er að fræðast meira um verkefnið á Facebook-síðunni Heima Öskudagur á Sauðárkróki >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.