Covid-tölurnar á niðurleið á Norðurlandi vestra

Tafla ANV frá í gær en samkvæmt tölum á Covid.is hefur nú þegar fólki í einangrun fækkað niður í sex og fólki í sóttkví í 15.
Tafla ANV frá í gær en samkvæmt tölum á Covid.is hefur nú þegar fólki í einangrun fækkað niður í sex og fólki í sóttkví í 15.

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sendi í gær frá sér töflu yfir smit á Norðurlandi vestra eftir póstnúmerum. Það er gleðilegt að tölur yfir fólk í einangrun og sóttkví hafa farið lækkandi síðustu vikuna. Samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is frá í morgun eru nú aðeins sex smitaðir á Norðurlandi vestra en þeir voru mest 17 í síðustu viku. Þá eru núna fimmtán í sóttkví á Norðurlandi vestra.

Þeim fækkaði um 65 milli daga sem nú eru í einangrun á landsvísu. Voru 1.304 en eru 1.239 í dag. Þá eru nú 31 einstaklingar á sjúkrahúsi vegna Covid og þar af sex á gjörgæslu sem eru heldur lægri tölur en fyrir helgi. Þetta er að sjálfsögðu jákvætt en hvort þetta þýði að fjórða bylgjan sé heldur að gefa eftir getur tíminn einn leitt í ljós. Sjá Covid.is > 

Fram kom í fréttum fyrir helgi að Landsspítalinn væri á mörkum þess að vera kominn í neyð vegna fjölda Covid-smitaðra á gjörgæslu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var orðinn klár með minnisblað til heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir en beið í raun aðeins eftir neyðarkalli frá Landsspítalnum.

Það er spurning hvort fækkunin nú allra síðustu daga verði til þess að minnka líkur á að aðgerðir verði hertar á landsvísu?

Munum svo að halda uppi vörnum í baráttunni við vágestinn; að spritta hendur, bera grímur þar sem það á við og virða fjarlægðarmörk. Þetta hefst með sameiginlegu átaki.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir