Covid-19 smit komið upp í FNV

Lituð rafeindasmásjármynd af SARS-CoV-2-veirum. Mynd: Vísindavefurinn.
Lituð rafeindasmásjármynd af SARS-CoV-2-veirum. Mynd: Vísindavefurinn.

Vegna Covid- smits sem kom upp hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra fellur allt skólahald niður í dag samkvæmt skilaboðum sem send voru nemendum og foreldrum í morgun. Óvíst er hvað áhrif þessa smits eru víðtækt en þó ljóst að sýning Leikfélags Sauðárkróks á Ronju ræningjadóttur fellur niður í dag, þar sem einn leikarinn er kominn í sóttkví.

Ingileif Oddsdóttir, skólameistari FNV, segir í samtali við Feyki að einn nemandi hafi reynst smitaður og farið í einangrun og í samráði við sóttvarnateymi hafi verið ákveðið að þrír aðrir nemendur auk eins kennara færu í sóttkví en aðrir tengdir skólastarfinu þurfi að viðhalda smitgát. Í öryggisskyni ákváðu skólastjórnendur að fella niður allt skólahald í dag en Ingileif segir að kennsla verði með óbreyttu sniði í helgarnámi skólans.

Vegna þess ástands sem upp er komið fellur sýning Leikfélags Sauðárkróks niður í dag en einn leikaranna þurfti að sæta sóttkví og aðrir að viðhalda smitgát enda margir þeirra nemendur FNV. Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður félagsins, segir að áframhaldið verði svo skoðað í dag hvort einhver möguleiki verði að sýna um helgina. Biður hún fólk að fylgjast með á Facebooksíðu félagsins en hringt verður í alla sem eiga pantað ef sýningar falla niður.

Mikið um hraðpróf
Fjöldi manns mættu í hraðpróf á heilsugæsluna á Sauðárhæðum í morgun og myndaðist löng röð próftaka. Kristrún Snjólfsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur, segist ekki geta sagt til um hvort um nemendur eða kennara skólans sé að ræða en taldi þó blanda af þeim og þeirra sem séu að taka prófið vegna einhverra viðburða sem viðkomandi eru að fara á um helgina. Sagði hún óvenju marga hafa komið í morgun en allir fengið neikvætt úr sýnum prófum. Þau sem send voru í sóttkví fara ekki í próf fyrr en að fimm dögum liðnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir