Caird frábær í fimmta sigri Stólanna í röð
Grindavík og Tindastóll mættust í kaflaskiptum en spennandi leik í Mustad-höllinni suður með sjó í gærkvöld. Grindvíkingar voru betra liðið í fyrri hálfleik en í þeim síðari náðu Stólarnir upp ágætri vörn og náðu að virkja Hester í sókninni. Að þessu sinni var það Chris Caird sem átti stórleik en kappinn skilaði 36 stigum í hús. Eftir sterkan lokakafla stungu Stólarnir af úr Grindavík með stigin þrjú en lokastaðan var 80-87.
Grindvíkingar náðu fljúgandi starti og komust í 10-0 á meðan hvorki gekk né rak hjá Stólunum. Svo hrökk Caird í gang og gerði tíu fyrstu stig Stólanna en þegar sex mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 15-14 fyrir heimamenn. Þá sveiflaðist leikurinn aftur og enn gerðu Grindvíkingar tíu stig í röð, staðan var svo 29-16 en Helgi Margeirs sendi einn djúpan sína leið í þann mund sem leikhlutinn var úti og staðan skárri, 29-19. Rólegt var yfir stigaskori framan af öðrum leikhluta eða þar til Þorsteinn Finnbogason fann gamla fjöl sem gott var að skjóta af, kappinn setti niður fjóra þrista í leikhlutanum, Grindvíkingar náðu 16 stiga forskoti þegar tæpar þrjár mínútur voru til leikhlés en þá loksins fór að fjara undan þeim í sókninni og Stólarnir með Helga Viggós í broddi fylkingar söxuðu á forystuna. Staðan 49-41 í leikhléi.
Antonio Hester var ískaldur í fyrri hálfleik og skilaði aðeins fimm stigum – virtist vart líklegur til að hitta fíl á metersfæri. Allt annað var að sjá til kappans eftir hlé. Svavar kom inn í stað Helga Viggós sem hafði sankað að sér þremur villum. Búbbinn sýndi góða takta og nú þurftu Grindvíkingar að elta hann út fyrir teiginn og þá opnaðist svæði fyrir Hester. Í stöðunni 56-47 snérist leikurinn Stólunum í hag. Sóknarleikurinn fór að renna vel og það var komin stemning í varnarleikinn. Hægt og sígandi söxuðu þeir á forskot heimamanna og það var ekki síst fyrir vaska framgöngu Hesters. Og þegar Grindvíkingar urðu að fara að einbeita sér að honum þá opnaðist fyrir Caird sem virtist ljómandi ánægður með girnilegt jólahlaðborð sem Grindvíkinga buðu honum uppá og raðaði niður sem aldrei fyrr. Caird jafnaði leikinn með 3ja stiga skoti, 64-64, og það var síðan Svabbi sem setti niður þrist undir lok þriðja leikhluta.
Caird gerði 13 fyrstu stig Tindastóls í fjórða leikhluta og kom Stólunum í 68-80. Heimamenn svöruðu með þremur þristum og eftir það var eins og þeir mættu bara skjóta þristum en nú náðu Stólarnir að stíga betur út í þá og þá varð þrautin þyngri. Helgi Viggós kom Stólunum í 77-83 með víti og körfu í kjölfarið. Pétur bætti við tveimur stigum og staðan 77-85 þegar tvær mínútur voru eftir. Heimamenn reyndust ekki nógu yfirvegaðir til að gera alvöru atlögu að Stólunum og það voru því kampakátir Tindastólsmenn sem fögnuðu fimmta sigri sínum í röð í deildinni ásamt stórum hópi háværra og stoltra stuðningsmanna sem mættu vel í Mustad-höllina.
Sem fyrr segir var leikur Stólanna kaflaskiptur. Caird átti frábæran leik með 36 stig og sex fráköst. Hester var slakur í fyrri hálfleik en flottur í þeim síðari, hann skilaði 17 stigum og tíu fráköstum. Pétur var með ellefu stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar en var að hitta illa utan 3ja stiga línunnar. Þá voru Helgi Viggós og Björgvin drjúgir þó það væri reyndar kominn einhver jólaskjálfti í vítin hjá þeim síðarnefnda.
Síðasti leikur Tindastóls fyrir jólafrí er næstkomandi fimmtudag þegar Haukar heimsækja Síkið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.