Býr í röngu póstnúmeri til að fá byggðarkvóta
Umsókn Þorgríms Ómars Tavsen um byggðarkvóta var hafnað af fiskistofu fyrir skemmstu. Þorgrímur gerir út bát sinn frá Sauðárkrók en fær ekki byggðarkvóta vegna þess að hann er ekki skráð lögheimili á Króknum.
Í reglum um byggðarkvóta segir að ekki nægi að skip sé gert út úr byggðarlagi sem á rétt á byggðarkvóta heldur þurfi sá sem skráður er fyrir því skipi einnig að vera með skráð heimilisfang í því byggðarlagi.
Þorgrímur hefur þegar kært ákvörðun Fiskistofu á þeim grundvelli að báturinn sé gerður út í Skagafirði og að Ytri-Húsabakki (561 Varmahlíð) og Sauðárkrókur myndi eina heild og beri að telja sem eitt byggðarlag vegna landshátta og samgangna, vísar Þorgrímur þar í að byggðarlag þýðir sameiginlegt atvinnusvæði.
Þorgrímur sendi stjórnsýslukæru til Matvælaráðuneytisins, sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu.
Sendi Þorgrímur Byggðarráði Skagafjarðar erindi þar sem hann útskýrði Málavexti.
í fundargerð Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd, þann 18. Júlí, kemur fram:
„Tekinn fyrir tölvupóstur, dags. 6. júlí 2022, frá Þorgrími Ómari Unasyni, þar sem hann upplýsir um að umsókn hans um úthlutun byggðakvóta hafi verið hafnað af Fiskistofu vegna búsetu sinnar sem tilheyri byggðarlaginu Varmahlíð. Þá niðurstöðu kærði umsækjandi til Matvælaráðuneytis sem hefur nú staðfest höfnun Fiskistofu. Umsækjandi óskar eftir aðstoð Skagafjarðar sveitarfélags svo útgerð hans njóti jafnræðis á við aðrar útgerðir í Skagafirði.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd harmar ákvörðun Fiskistofu. Skagafjörður er eitt sveitarfélag og eitt atvinnusvæði. Nefndin undrast því afgreiðslu Fiskistofu að hafna úthlutun byggðarkvóta vegna skilgreininga póstnúmera innan sveitarfélagsins og hvetur Fiskistofu til að endurskoða regluverk sitt er kemur að þessu.“
/IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.