Byggðastofnun fær þrjá milljarða til að lána minni fyrirtækjum
Mbl.is segir frá því að evrópski fjárfestingasjóðurinn hafi veitt Byggðastofnun bakábyrgð að hluta á allt að ríflega þremurmilljörðum króna, eða um 20 milljónum evra, með stuðningi svokallaðrar COSME-áætlunar Evrópusambandsins. Þessir fjármunir eiga að nýtast Byggðastofnun til þess að veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni lán.
Með þessu samkomulagi getur Byggðastofnun boðið rýmri lánaskilmála, þar á meðal lán sem sérsniðin eru að t.d. umhverfisvernd, nýsköpun, stuðningi við frumkvöðlastarfsemi kvenna, ungra bænda og sjávarútvegs í viðkvæmum byggðum. Gert er ráð fyrir að allt að 100 fyrirtæki af landsbyggðinni geti nýtt sér lán af þessu tagi.
„Það er einkar mikilvægt, sér í lagi í kjölfar þessa alheimsfaraldurs, að landsbyggðirnar hafi aðgengi að fjármögnun í þeirri endurreisn atvinnulífsins sem fram undan er. Þetta samkomulag mun auðvelda Byggðastofnun að sinna sínu hlutverki og styrkja allar dreifðari byggðir landsins,“ segir Arnar Már Elíasson, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar, í tilkynningu um málið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.