Byggðastefna, strandsvæðastjórn og svæðisgarður

Grunnþjónusta og jafnræði
Við erum sannfærðir um að til að setja og framkvæma ábyrga og vitlega byggðastefnu til langs tíma verði að byrja á því að skýra vel hvað við eigum við með grunnþjónustu. Síðan þurfum við að ná sátt um hvernig við tryggjum okkur öllum þá þjónustu á jafnræðisgrundvelli; sömu þjónustu fyrir sama gjald. Þar þurfum við að ræða um orku, fjarskipti og gagnaflutninga, samgöngur, grunnmenntun, heilsugæslu, félagsþjónustu, löggæslu og örugglega eitthvað fleira. Þegar við höfum komið okkur saman um hvað telst vera grunnþjónusta þurfum við að gera tímasettar áætlanir um framkvæmdir og úrbætur og forgangsröðun og standa svo við þetta allt þó að stjórnarskipti verði í landinu.

Þegar þetta hefur verið gert og þá fyrst kemur í ljós hvernig byggðirnar raunverulega standa. Hvaða byggðir eru eftirsóknarverðar til búsetu og hverjar þeirra eru það síður. En hér skiptir líka mjög miklu máli að heimafólk greini vel styrkleika og möguleika svæðanna þar sem það býr og ákveði saman hvert það vill stefna. Árangurinn er mjög undir því kominn að íbúarnir vinni vel saman að þessu, þvert á sveitarfélög, atvinnugreinar og stjórnmálaskoðanir og reki á dyr sundurlyndisfjandann leiða, fúla og lífseiga.

Strandsvæði og landsvæði
En við erum samt ekki alveg svo sjálfumglaðir að halda að það séu stórmerkileg ný sannindi sem við erum að boða hér. Vel meinandi fólk hefur auðvitað áttað sig á þessu fyrir löngu síðan. Okkur langar þó að hvetja fólk til að kynna sér tvö mjög áhugaverð verkefni af þessum toga á Norðvesturlandi. Þau byggja bæði á þeirri hugmynd að draga saman íbúa, hagsmunaaðila, stjórnvöld, fræðimenn og ráðgjafa af tilteknum svæðum til að greina skipulega tækifæri, styrkleika og sérkenni svæðanna. Og gera svo sameiginlega áætlanir um skynsamlega og ábyrga nýtingu þeirra til og skjóta þannig styrkum stoðum undir fjölbreytilegt atvinnulíf og mannlíf. Þarna er hugsað og áætlað til langs tíma og þarna eru engar skyndilausnir eða hugdettur eða reddingar.

Annars vegar er það verkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum, Háskólaseturs Vestfjarða o.fl. um gerð nýtingaráætlana fyrir strandsvæði en Háskólasetrið býður einmitt upp á nám í haf- og strandsvæðastjórnun. Og hins vegar er það svæðisgarðsverkefnið á Snæfellsnesi með þátttöku sveitarfélaga þar, íbúa og hagsmunaaðila en ráðgjafarfyrirtækið Alta, sem hefur útibú í Grundarfirði, heldur utan um það verkefni.

Stjórn strandsvæða lýtur að því að skipuleggja nýtingu strandsvæða og þá margbreytilegu starfsemi sem þeim tengist, s.s. veiðar, fiskeldi, ferðaþjónustu, efnistöku, útivist, hlunnindanýtingu, samgöngur, veitur, búsvæði o.fl. þannig að mismunandi hagsmunir rekist síður á og gætt sé langtímahugsunar, hagkvæmni og ábyrgðar í umhverfismálum. Allt í þágu íbúa svæðanna að sjálfsögu.  Það er morgunljóst að hagsmunir, tækifæri og möguleikar varðandi nýtingu strandsvæða og til að byggja upp sérþekkingu á því sviði eru óvíða meiri en á Vestfjörðum. Tilgangur með stofnun svæðisgarðs er að efla samfélagið, vinna sameiginlega að því að bæta lífsgæði og lífskjör og auka upplifun og vellíðan íbúa og gesta.

Svona frumkvæði og framtak og verkefni íbúanna þarf ríkisvaldið að styðja með ráð og dáð. Þannig fær heimafólk ábyrgð og vald til að styrkja byggðir sínar, fjölbreytilegra atvinnulíf og skemmtilegra mannlíf. Það er mjög góð byggðastefna.

Árni Múli Jónasson og G. Valdimar Valdemarsson

Höfundar eru í 1. og 2. sæti á lista Bjartrar framtíðar í NV-kjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir