Byggðasaga Skagafjarðar tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2022

Hjalti Pálsson, 3. frá hægri, í góðum hópi tilnefndra til Viðurkenningar Hagþenkis 2022. Mynd af hagthenkir.is.
Hjalti Pálsson, 3. frá hægri, í góðum hópi tilnefndra til Viðurkenningar Hagþenkis 2022. Mynd af hagthenkir.is.

Tilnefningar til Viðurkenningar Hagþenkis voru kynntar miðvikudaginn 8. febrúar í Borgarbókasafni Reykjavíkur í Grófinni, af formanni Hagþenkis, Gunnari Þór Bjarnasyni. Hjalti Pálsson, Byggðasöguritari á Sauðárkróki, er í hópi tíu útvalinna að þessu sinni.

Einu sinni áður hefur eitt bindi Byggðasögunnar verið tilnefnt og segir Hjalti að hann hafi ekkert átt von á þessu núna. Hins vegar er verið að tilnefna allt verkið að þessu sinni en þær séu reyndar miðaðar við bækur sem komu út á síðasta ári en síðasta bindið Byggðasögunnar kom út 2021. „Þau kusu samt sem áður að gera þetta svona og þá bara allt verkið,“ útskýrir Hjalti. „Þetta er auðvitað viðurkenning á því sem við erum að gera hér í Skagafirði. Svo verður það bara að koma í ljós hver niðurstaðan verður. Það eru fleiri góðir í þessu og með góðar bækur. Það er bara einn sem fær verðlaun,“ segir Hjalti og bætir við: „Þetta er mikil viðurkenning á því sem við erum að gera. Þetta hefur verið mikið þolinmæðisverk.“

Á heimasíðu Hagþenkis eru tilnefndir höfundar og rit kynnt til leiks. Þau eru:

Anna María Bogadóttir. Jarðsetning. Angústúra.
Persónulegt og vekjandi rit um manngerð rými sem hvetur til yfirvegunar um uppbyggingu og niðurbrot.

Ásdís Ólafsdóttir og Ólafur Kvaran. Abstrakt geómetría á Íslandi 1950–1960. Veröld.
Vandað og fallegt rit um byltingaráratug í íslenskri myndlist. Ítarleg umfjöllun um tímabilið með myndum af einstökum verkum listamanna.

Ástríður Stefánsdóttir, Guðrún V. Stefánsdóttir og Kristín Björnsdóttir (ritstj.). Aðstæðubundið sjálfræði. Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun. Háskólaútgáfan.
Hagnýtt fræðirit um þann einfalda en oft hunsaða sannleik að allir þjóðfélagsþegnar eigi að njóta grundvallarmannréttinda. Tímamótaverk.

Daníel Bergmann. Fálkinn. Anda.
Falleg og vönduð bók sem gefur góða innsýn í lifnaðarhætti fálkans og náið samband hans við íslensku rjúpuna, prýdd einstæðum ljósmyndum.

Helgi Þorláksson. Á sögustöðum. Bessastaðir, Skálholt, Oddi, Reykholt, Hólar, Þingvellir. Vaka-Helgafell.
Mikilvæg bók sem teflir niðurstöðum nýlegra rannsókna fram gegn hefðbundinni sýn á sögustaði.

Hjalti Pálsson. Byggðasaga Skagafjarðar. I.¬–X. bindi. Sögufélag Skagfirðinga. 
Yfirgripsmikið fjölbindaverk, skrifað af þekkingu og stutt margvíslegum heimildum ásamt fjölda ljósmynda.

Kristín Svava Tómasdóttir. Farsótt. Hundrað ár í Þingholtsstræti 25. Sögufélag.
Saga Farsóttarhússins myndar ramma utan um óvæntar frásagnir og sjónarhorn sem skerpt er á með vönduðu myndefni.

Ragnar Stefánsson. Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta. Skrudda.
Vandað fræðirit um jarðhræringar á Íslandi stutt viðamiklum mæligögnum og frábærum skýringarmyndum og kortum.

Stefán Ólafsson. Baráttan um bjargirnar. Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags. Háskólaútgáfan.
Víðtæk og vel skrifuð þjóðfélagsfræðileg greining á þróun lífskjara og samfélagsgerðar á Íslandi.

Þorsteinn Gunnarsson. Nesstofa við Seltjörn. Saga hússins, endurreisn og byggingarlist. Þjóðminjasafn Íslands.
Ítarlegt yfirlitsrit þar sem lesendur fá glögga innsýn í aldarfar og atburði í kaupbæti með sögu Nesstofu fyrr og nú.

Ritin verða kynnt af höfundum í Borgarbókasafninu í Grófinni laugardaginn 25. febrúar kl. 13-15 en Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn um miðjan mars og felst hún í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. verðlaunafé.

Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagmönnum til tveggja ára í senn og í því eru: Ársæll Már Arnarson, Halldóra Kristinsdóttir, Sigurður Sveinn Snorrason, Sússana Margrét Gestsdóttir og Svanhildur Óskarsdóttir. Verkefnastjóri er Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis.

Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna en markmið þess er að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og bæta skilyrði til samninga og útgáfu fræðirita og kennslugagna og skylds efnis sem félagsmenn vinna að.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir