Burtséð frá því hvernig leikar fara
Það fer ekki á milli mála hvert mál málanna er þessa dagana, jú körfubolti. Rimma Tindastóls og liðs Skagfirðingsins sr. Friðriks Friðrikssonar, Vals á Hlíðarenda, í úrslitaeinvígi Subway-deildarinnar er í brennidepli. Blóðug barátta leikmanna, kæra dómaranefndar, miðasöluágreiningur, níðsöngvar stuðningsmannasveita og bjórþamb áhorfenda rata milli tanna fólks og það sem kannski fáir taka eftir, ruslatínsla gesta.
Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson veitti því þá athygli eftir leik Vals og Tindastóls sl. laugardag að Skagfirðingarnir í stúkunni vildu skilja vel við áhorfendastúkuna en hann skrifaði á Facebook-síðu sína:
„Burtséð frá því hvernig leikar fara. Burtséð frá því hvað er sagt eða sungið á pöllunum í hita leiksins. Burtséð frá því hvort liðið fer með sigur af hólmi, þá ber ég virðingu fyrir þeim sem taka til eftir sig og sitt lið.
Eftir sigur Tindastóls á Val í fyrsta leik úrslitaeinvígisins í körfuknattleik karla tóku stuðningsmenn Tindastóls til eftir sig á pöllunum og stúkunni. Þeir hreinsuðu upp dósir, flöskur, glös og drasl án þess að vera beðnir um það. Þetta gerðu þeir líka í fyrra, eftir tapleik gegn Val.
Þetta er hluti af sönnum anda íþróttanna, að láta aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. Við fullorðna fólkið erum fyrirmyndir og það er alltaf sterkast að sýna það í verki frekar en að reyna að segja hvað eigi að gera. Og hvað ekki. Takk Tindastóll.“
Hvort þetta er táknrænt fyrir sópinn alræmda, þegar annað liðið sópar hinu út, er ekki vitað en alls ekki útilokað.
Fleiri myndir er hægt að skoða á Facebook-síðu Þorgríms Þráinssonar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.