Búningar Leikfélagsins liggja undir skemmdum

Stjórn Leikfélags Sauðárkróks brá heldur í brún á fyrsta fundi á nýju ári.  Að venju ætluðu stjórn og varastjórn að funda í Leikborg, húsnæði félagsins, en þegar inn var komið mætti þeim riging - innanhúss!  

Krani á efri hæðinni hafði gefið sig svo vatn flæddi gegnum milligólfið, niður í troðfulla búningageymsluna og út að dyrum.
Ekki er enn ljóst hversu mikið tjónið er, en vinna við að hreinsa og þurrka búninga og aðrar vefnaðarvörur verður gríðarleg.  Við fyrstu tiltekt í gær voru 15 ruslapokar af blautum fötum keyrðir að þvottavélum leikfélagsmanna út um allan bæ svo gera má ráð fyrir að útisnúrur Sauðkrækinga verði með skrautlegra móti næstu dagana. 

Þessir 15 pokar eru þó líklega bara helmingurinn af því sem þarf að hreinsa, svo ef einhverjir vilja leggja leikfélaginu lið með því að þvo nokkrar þvottavélar mega þeir gjarnan hafa samband við Sivu í síma 893 6358. 

Myndir og texti: Siva

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir