Búist við snælduvitlausu veðri í fyrramálið

Það er ekki allt gott sem kemur með sunnanáttinni en snemma í fyrramálið tekur í gildi gular og appelsínugular veðurviðvaranir, fyrst á Suðurlandi og Faxaflóasvæðinu en hver landshlutinn á fætur öðrum fær á sig rauðgulan lit nema Vestfirðir sem einungis fá skærgulan. Spáð er sunnan stormi, roki og sums staðar ofsaveðri, 20-30 m/s, með slyddu eða snjókomu.

Á heimasíðu Veðurstofu Íslands segir að snúist í suðvestan hvassviðri með éljum, fyrst vestan til en eftir hádegi á Austanlandi. Hiti víða í kringum frostmark en allt að fimm stigum við suðurströndina framan af degi. Vægt frost annað kvöld.

Í athugasemd veðurfræðings segir að kólnandi veður verði í dag með éljagangi og því viðbúið að vetraraðstæður myndist víða. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám.

Strandir og Norðurland vestra

Milli klukkan 07:00 – 10:00 í fyrramálið má búast við hvelli á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra þegar suðvestan stormur eða rok mun ríkja og talsverð úrkoma, sem þýðir einfaldlega appelsínugult ástand. Sunnan og suðvestan 23-28 m/s og talsverð snjókoma, mjög snarpar vindhviður við fjöll, staðbundið yfir 40 m/s. Fólki er bent á að tryggja muni utandyra. Ekkert ferðaveður verður á meðan veðrið gengur yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir