Brúarsmíði yfir Laxá í Refasveit fyrir um 100 árum
Á vef Skagastrandar birtist vikulega mynd úr Ljósmyndasafni bæjarins og það eru margir sem hafa gaman að því að skyggnast aftur í tímann, sjá gömul og stundum kunnugleg andlit og lífið eins og það var. Eins og flestir hér á Norðurlandi vestra vita þá eru vegframkvæmdir milli Blönduóss og Skagastrandar og meðal annars verið að byggja brú yfir Laxá í Refasveit – þá þriðju frá upphafi. Það er því gaman að sjá mynd vikunnar að þessu sinni sem sýnir byggingu fyrstu brúarinnar.
„Myndin sýnir byggingu brúar sem byggð var yfir Laxá í Refasveit 1924 - 1927, ca 100 metrum neðan við þá sem nú er notuð (2022). Nú er verið að byggja enn aðra brú á nýjum Skagastrandarvegi töluvert neðar en þessi brú stendur. Eins og sjá má var þessi brú byggð með handafli því vélar voru ekki mikið komnar til sögunnar þegar það var gert. Staðsetning hennar var valin með það í huga að hafið yfir ána væri sem styst. Brekkur voru að henni beggja vegna og beygjur. Þess vegna gat verið erfitt að komast inn á hana í mikilli hálku og af henni upp brekkuna, sérstaklega að norðanverðu. Í dag eru fjórar brýr í notkun á Laxánni,“ segir í texta með myndinni sem Geir G. Zöega, vegamálastjóri 1918-1956, tók.
Það er næsta víst að eitthvað hefur verklagið við brúarvinnuna breyst á tæpum hundrað árum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.