Brottfluttir Blönduósingar gefa út ballöður
Þér fylgja englar er fyrsta lagið sem hljómsveitin Löður sendir frá sér, dúett skipaður brottfluttu Blönduósingunum Maríu Ólafs söngkonu og Einari Erni Jónssyni sem gerði garðinn frægan með hljómsveitinni Í svörtum fötum.
„Með okkur í upptökunum léku tólf úrvals hljóðfæraleikarar og söngvarar,“ segir Einar og bætir við: „Löður mun senda frá sér nýjar ballöður á næstu misserum og halda tónleika ásamt hljómsveit og strengjasveit þar sem við spilum bestu ballöður allra tíma. Svo skemmtilega vill til að við erum bæði alin upp á Blönduósi. Ég þó heldur fyrr og lengur en María, en hún flutti frá Blönduósi um átta ára aldur. Við eigum mikið af ættingjum í bænum.“
Einar Örn Jónsson lagahöfundur og píanóleikari
Skjámynd af YouTube.
Með hljómsveitinni leika einnig Gunnar Leó Pálsson (trommur), Friðrik Sturluson (bassi) og Davíð Sigurgeirsson (gítar). Löður, eins og nafnið bendir til, leggur megin áherslu á að gefa út og spila ballöður. Ómur strengja er áberandi í laginu Þér fylgja englar og segir Einar að lifandi strengir séu mjög mikilvægur partur af hljómsveitinni.
Hægt er að fylgjast með verkefnum Löðurs á Instagram- og Facebooksíðu sveitarinnar en spennandi verður að sjá og heyra meira frá þeim Maríu og Einari. Hér fyrir neðan má sjá og heyra flutning Löðurs á Þér fylgja englar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.