Brimskaflar lífsins | Leiðari 12. tbl. Feykis
Að liggja á spítala getur verið góð skemmtun. Undirritaður þurfti í ársbyrjun að leita sér hjálpar vegna augnvandamála og fékk að dvelja á Landspítalanum í ellefu daga. Eftir að hafa séð allt í móðu í nokkrar vikur tók augnlæknirinn minn fram galdraverkfærin sín og smám saman varð ljós. Hann vildi hafa auga með mér, vandræðagarminum, og fannst rétt að ég tæki gluggasæti á 12G.
Handan við tjaldið sem skipti herberginu lá bandarískur ferðamaður á áttræðisaldri og konan hans var tíður gestur hjá honum. Við Íslendiingar erum nú ekki alltaf hrifnir af þessum símalandi Könum en þetta reyndust eðaleintök, töluðu að sjálfsögðu mikið en voru yndislega hress og jákvæð.
Þau höfðu verið á ferðalagi með svolitlum hópi og farið um landið í fylgd leiðsögukonu sem síðar var svo almennileg að heimsækja þau á herbergið með blóm, bakkelsi og gleði í hjarta og var þá mikið hlegið – sérstaklega að ástæðu þess að kappinn lá fárveikur á spítala. Á síðasta degi ferðalagsins hafði hópurinn gengið inn í Langjökul og skoðað íslensk tröll í bakaleiðinni. Þá hafði hann ákveðið að kenna ferðafélaga sínum hvernig á að framleiða hiksta. Það gerði hann með því að slá létt undir bringuspalirnar á sér, fékk í kjölfarið verki og var fluttur á spítala. Það kom í ljós að hann hafði að öllum líkindum gert holu á veiklað lunga sitt með þessum bringuslætti. Heimferðin dróst því um tæpan hálfan mánuð með tilheyrandi kostnaði og ólíklegt að veskið leyfði frekari ferðalög næstu árin.
Eitt það síðasta sem þau gerðu áður en þau kvöddu Lansann var að svara þjónustukönnun frá fyrirtækinu sem þau höfðu ferðast með um landið. Það var ánægjulegt að heyra að flestar heimsóknir þeirra fengu einkunnina excellent og í raun voru þau ánægð með allt sem boðið var upp á – meira að segja hina heimsfrægu íslensku hot dog. Að vísu höfðu þau ekki séð mikið af norðurljósum í norðurljósaferðinni en þau voru svo dolfallin yfir því hvað Ísland var ólíkt því sem þau höfðu áður upplifað að það virtist nánast sama hvað þeim hefði verið sýnt. Meira að segja kynningarferð milli styttnanna í Reykjavík var skemmtileg.
Jákvætt hugarfar og samheldni getur gert baráttuna við brimskafla lífsins töluvert þægilegri. Þessi hjón hefðu örugglega verið Dúdda á Skörðugili að skapi – þau virtust í það minnsta hafa vit á því að vera í góðu skapi þó aðstæður þeirra væru erfiðar.
Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.