Breytingar hjá Sýndarveruleika á Sauðárkróki
Freyja Rut Emilsdóttir mun taka við starfi framkvæmdastjóra Sýndarveruleika ehf, sem á og rekur sýninguna 1238 Baráttan um Ísland, á Sauðárkróki, um áramót. Áskell Heiðar Ásgeirsson sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra mun hliðra til innan fyrirtækisins og starfa áfram að sérverkefnum, ýmsum þróunarverkefnum, en hann hefur stýrt Sýndarveruleika frá haustmánuðum 2018. Auk rekstrar á sýningu fyrirtækisins á Sauðárkróki vinnur Sýndarveruleiki ehf. nú að því að koma tæknilausnum fyrir söfn og sýningar á markað, auk þess sem unnið er að uppsetningu sýninga í samstarfi við aðra aðila t.d. Víkingaheima í Reykjanesbæ þar sem stefnt er að opnun nýrrar sýningar með sýndarveruleikaupplifun í vetur.
1238 Baráttan um Ísland er framsækið nýsköpunar- og tækniverkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og er sýningunni ætlað að vera mikilvægur segull fyrir ferðamenn á Norðurlandi. Sérstaða sýningarinnar felst í þeirri áherslu sem lögð er á að skapa merkingarbæra upplifun á menningararfinum með notkun nýjustu tækni á borð við viðbótarveruleika (e. augmented reality) og sýndarveruleika (e. virtual reality), þar sem gestir taka þátt og upplifa bardaga Sturlungaaldarinnar. Sýningin hefur nú þegar skapað sér eftirtektarverða sérstöðu á þeim markaði, sem á undanförnum misserum hefur verið staðfest með tilnefningum og viðurkenningum bæði innanlands og utan, t.d. evrópsku menningarverðlaunanna Heritage in Motion, Sproti ársins hjá Markaðsstofu Norðurlands og Framúrskarandi verkefni hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
Framundan eru fjölmörg nýsköpunarverkefni, meðal annars er unnið er að lokauppsetningu á verkefninu „Sturlunga í okkar höndum“ þar sem unnið er með hreyfiföngunartækni og myndvörpun í lófa sýningargesta. Á dögunum fékkst styrkur frá Uppbyggingarsjóði SSNV til að vinna að uppsetningu sýningarinnar „Stafrænt tímaferðalag um Gránu“, þar sem saga verslunar og þjónustu í húsnæði sýningarinnar er sögð með hjálp snjalltækja og viðbætts veruleika.
Það er því óhætt að segja að spennandi verkefni séu framundan hjá nýjum framkvæmdastjóra en Freyja Rut hefur starfað hjá Sýndarveruleika frá opnun sýningarinnar 2019. Hún hefur MCM gráðu í menningarstjórnun með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf frá Háskólanum á Bifröst, B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og diplómu í ferðamarkaðsfræði.
Til að þakka Skagfirðingum fyrir frábærar viðtökur frá opnun og stuðning í gegnum heimsfaraldur hefur fyrirtækið ákveðið að senda öllum heimilinum í Skagafirði boðsmiða á sýninguna sem gilda mun allt næsta ár.
Til að auðga menningarlíf Skagafjarðar hefur starfsfólk Sýndarveruleika ehf. einnig staðið fyrir fjölda viðburða í húsnæði sýningarinnar. Þar hafa verið haldnir tónleikar, sögukvöld, bókakynningar og fleira og næsta laugardag lýkur dagskrá ársins með veglegum jólatónleikum. Þessir viðburðir hafa fengið frábærar viðtökur og verið vel sóttir. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra hefur styrkt viðburðahaldið.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.