Börn á Vatnsnesi þurfa væntanlega að hossast um ónýtan veginn alla sína skólagöngu

Fyrir ári síðan deildi ég mynd af skólabílnum að skríða heim að loknum skóladegi með börnin okkar. 
Ég vildi óska að raunveruleikinn væri annar núna ári seinna en því er öfugt farið. Vegurinn er verri en hann hefur nokkru sinni verið.
Fyrir ári síðan deildi ég mynd af skólabílnum að skríða heim að loknum skóladegi með börnin okkar. Ég vildi óska að raunveruleikinn væri annar núna ári seinna en því er öfugt farið. Vegurinn er verri en hann hefur nokkru sinni verið." skrifar Guðrún Ósk Indriðadóttir á Facebooksíðu sína og deilir þessari mynd með.

Vatnsnesvegur í Húnaþingi vestra hefur oft ratað í fréttirnar enda afar slæmur yfirferðar oft á tíðum, holóttur og mjór. Umferð ferðamanna um nesið hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og ekki er langt síðan hann markaði upphaf Norðurstrandarvegar vestan megin. Ef til vill upplifir ferðamaðurinn akstur sinn um veginn sem skemmtilegt ævintýri en það sem skiptir öllu máli er umferð íbúa nessins sem um hann fer dags daglega. Þar fara börnin fremst í flokki sem ferðast með skólabílnum drjúga stund á leið í skólann.

Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir, íbúi á Vatnsnesi , vekur á samfélagsmiðlum athygli á ástandi vegarins um nesið og segir hann verri en nokkru sinni áður: „Fyrir ári síðan deildi ég mynd af skólabílnum að skríða heim að loknum skóladegi með börnin okkar. Ég vildi óska að raunveruleikinn væri annar núna ári seinna en því er öfugt farið. Vegurinn er verri en hann hefur nokkru sinni verið.Ég vil því benda á aftur, nú ári síðar að öll okkar börn sem sitja í þessum skólabíl eiga, samkvæmt samgönguáætlun, eftir að keyra veg í þessu ástandi alla sína skólagöngu. Líka þau sem eru ný sest á skólabekk. Endilega deilið þessum raunveruleika áfram fyrir okkur svo sem flestir fái að sjá!“ skrifar hún á Facebook.

Eftir mikla baráttu heimamanna og annarra áhugasamra er Vatnsnesvegur kominn á samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034 en í endurskoðaðri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að þremur milljörðum króna verði varið í endurbætur á Vatnsnesvegi.


Í áætluninni  er gert ráð fyrir 500 miljóna króna framlagi á öðru tímabili 2025–2029 en aðalframkvæmdir eru hugsaðar á þriðja tímabili áætlunarinnar sem ná yfir árin 2030-2034, 60 km kafli, og þrír milljarðar eyrnamerktir framkvæmdinni. Leiðir sú staðreynd athyglinni að orðum Guðrúnar Óskar hér að framan um að skólabörnin eigi eftir að keyra veginn í þessu ástandi alla sína skólagöngu en dæmi eru um að börn verði bílveik á leið í skólann sem komi niður á líðan þeirra og árangri yfir daginn. Sum þeirra þurfa yfir langan veg að fara og sitja í um eina klukkustund aðra leiðina þegar færið er gott en sá tími getur tvöfaldast þegar vegurinn fer í það ástand sem hann nú er í.

Í sumar stóð til að fara í byggingu 17 metra langrar brúar yfir Vesturhópshólaá á Vatnsnesvegi, nýbyggingu vegar á um einum km kafla og endurbyggingu á um 1,2 km löngum kafla milli Vesturhópshóla og Þorfinnsstaða en inni í verkinu var einnig bygging heimreiða og tenginga. Verktakar sýndu verkinu lítinn áhuga og svo fór að engin tilboð bárust svo bíða þarf enn um sinn um þær lagfæringar.

Nú eru kosningar að baki og ferskir þingmenn komnir á Austurvöllinn svo það er spurning hvort hægt er að brýna þá til góðra verka og reyna hvort ekki sé hægt að flýta framkvæmdum svo sómi sé að. Bjarni Jónsson, oddviti VG í kjördæminu, virðist vera klár í slaginn eftir skrifum hans að dæma í athugasemd við færslu Guðrúnar: „Þetta þurfum við að ganga í og breyta núna! Mun, nú sem alþingismaður, gera sem get að uppbygging Vatnsnesvegar dragist ekki frekar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir