Bókin Stóraborg eftir Þórð Tómasson komin út
Stóraborg, staður mannlífs og menningar kom í verslanir í gær sem er jafnframt afmælisdagur höfundar en hann varð þá hundrað. Fyrir hálfri öld tók brim að brjóta niður hinn forna bæjarhól Stóruborgar undir Eyjafjöllum og afhjúpaði um leið minjar um aldalanga búsetu.
Í tilkynningu frá Bókaútgáfunni Sæmundi segir að safnvörðurinn Þórður Tómasson hafi fylgst grannt með eyðingunni og bjargað fjölda gripa sem sjórinn gróf úr hólnum uns Þjóðminjasafn hóf fornleifarannsókn á svæðinu árið 1978. Í bókinni stiklar höfundur á stóru um sögu Stóruborgar, segir frá fjölmörgum gripum sem hann fann í Borgarhól og dregur af þeim ályktanir um mannlíf, búskaparhætti og menningarsögu eins og honum einum er lagið.
Bókin er gefin út í tilefni af afmælinu og fylgir henni inngangur eftir Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörð sem segir þar m.a.:
„Þórð vil ég telja með beztu safnmönnum okkar á öllum tímum, og nefni ég hann í hópi með Sigurði Guðmundssyni og Sigurði Vigfússyni, sem fyrstir stýrðu Forngripasafninu í Reykja-vík, svo og Matthíasi Þórðarsyni og Kristjáni Eldjárn þjóðminjavörðum.“
Stóraborg er 30. bók Þórðar sem auk þess hefur á löngum ferli ritað hundruð greina í blöð og tímarit. Bókinni fylgir heillaóskaskrá þar sem um 900 manns senda afmælisbarninu kveðju sína.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.