Bókin Fyrsti sjúkraflugmaðurinn er komin út

Kápa bókarinnar. MYNDIR AÐSENDAR.
Kápa bókarinnar. MYNDIR AÐSENDAR.

Út er komin hjá Bókaútgáfunni Hólum stórmerk bók um fyrsta sjúkraflugmanninn á Íslandi, Björn Pálsson. Jóhannes Tómasson skráði.

Björn Pálsson var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi. Hann vann marga hetjudáðina og var kallaður „bjargvættur landsbyggðarinnar“ en hann var oft eina lífsvon sjúkra og slasaðra úti á landi. Hann fór í loftið þótt veðurútlitið væri allt annað en gott til flugs, svo ekki sé nú minnst á lendingarstaðina sem sumir voru varla meira en "lófastærð". Þetta er vægast sagt einstök lesning um einstakan mann og ekki seinna vænna að halda minningu hans á lofti, en Björn lést í flugslysi fyrir 50 árum og var þá ekki sjálfur við stýrið.

Verkefni Björns voru af ýmsum toga eins og tvö næstu kaflabrot sýna okkur:

Þarna er hross

Í grein í Tímanum 13. maí 1958 segir Björn Egilsson á Sveinsstöðum í Skagafirði frá flugferð með Birni Pálssyni til að leita hrossa á afrétti upp af Skagafirði. Nágrannabóndi hans hafði fengið Björn Pálsson til flugsins og bað hann nafna hans að fara með honum. Birni bónda varð um og ó og „kunni ekki við að auglýsa það fyrir sveitinni að ég þyrði ekki að fljúga, því almenningur hefir jafnan talið hvers konar hræðslu til ræfildóms,“ segir Björn í grein sinni. Hann hafði sig til og „fór að raka mig, því ekki þótti mér viðeigandi að fara skeggjaður inn í eilífðina, ef svo skipaðist“,skrifar Björn einnig og gerir ekki lítið úr flughræðslu sinni.

Á flugvellinum hittust þeir nafnar og Björn bóndi skrifar: „Hann sagði til sín og ég virti fyrir mér þennan fræga mann, sem ekki virtist vita það sjálfur, en bauð sérstaklega góðan þokka við fyrstu sýn.“ Flugáætlunin hljóðaði upp á tveggja tíma flug inn að Hofsjökli austanverðum og nú var allt til reiðu. „Síðan gengum við út á vígvöllinn, en engin ró eða öryggistilfinning var innra með mér,“ segir Björn og kveðst þó ekki vilja fljúga með neinum öðrum en Birni Pálssyni vegna þess trausts sem hann nyti. Flugvélin tók mjúklega af stað og leið um loftið „eins og í mjúkri sæng hjá konu,“ skrifar Björn. „En þetta var ekki nema hálf sagan. Hins vegar var svo hinn óhugnanlegi ótti, sem erfitt er að segja frá. Þessi gínandi hæð niður á jörðina og mér leið því verr sem fjær dró frá jörðinni. Ég vildi vera sem næst henni úr því sem komið var,“ og segir Björn hræðsluna hafa komið í hviðum. Hann hafi þá farið að hugsa um annað, meðal annars gat honum ekki dulist „hin dásamlega útsýn“. Er þeir flugu yfir gljúfur Vestari-Jökulsár varð Birni bónda ekki um sel: „En sem við vorum yfir gljúfrinu skeði hið óhugnanlega, sem ekki hafði komið fyrir áður í þessari ferð. Flugvélin tók að hallast á vestari vænginn eða hægri vænginn og minn vængur vísaði ofan í gljúfrið. Ég sagði ekki neitt, en ekki þykir mér ólíklegt að nafni minn hafi séð á mér angistarsvipinn. Þetta stóð ekki lengi sem betur fór.“

Áfram flugu þeir inn yfir landið og fundu við Orravatnsrústir, ekki langt frá Reyðarfelli, tvö af hrossunum þremur sem þeir leituðu. Björn bóndi sótti þau síðar fótgangandi.

Tveir farþegar í flugtaki – þrír í lendingu

Mánudaginn 11. september 1961 fæddist stúlkubarn á Íslandi sem er ekki endilega í frásögur færandi nema fyrir það að móðirin var í flugvél á leið á fæðingardeildina í Reykjavík þegar stúlkan kom í heiminn. Stúlkunni lá sem sagt á. Birni Pálssyni hafði þennan dag borist ósk frá Þorgeiri Jónssyni, lækni á Þingeyri, um að hann sækti þangað konu í barnsnauð og flytti til Reykjavíkur. Læknirinn taldi vandamál með fylgjuna og rétt að hún kæmist til sérfræðinga til að fæða. Hann áliti þó ekki líklegt að konan fæddi barnið á leiðinni og ákvað að fara ekki með.

Kristín Gunnarsdóttir og Guðmundur Sören Magnússon bjuggu á Brekku í Dýrafirði og áttu þau fyrir átta börn. Uppkomin börn þeirra urðu ellefu en eitt fæddist andvana. „Læknirinn taldi einhverja fyrirstöðu svo hann vildi að ég yrði flutt suður,“ segir Kristín í samtali við skrásetjara. „Við bjuggum á bænum Brekku í Dýrafirði, ekki langt frá Þingeyri, og ég var flutt með vörubíl á sjúkraskýlið. Þar ákvað læknirinn að ég skyldi flutt suður og Björn Pálsson kom á sjúkraflugvél sinni.“

Í frétt Morgunblaðsins 14. september segir að stærri flugvél Björns, og er átt við Twin Bonanza-flugvélina TF-VOR, hafi verið að koma úr ársskoðun og farið beint í sjúkraflugið eftir reynsluflug. „Ég snaraðist niður á völlinn á Þingeyri um fimmleytið og var þá strax komið með konuna,“ er haft eftir Birni í fréttinni. Kristín segir að flugferðin hafi gengið vel en eftir þó nokkurt flug hafi þeim orðið ljóst að hún væri komin með fæðingarhríðir og Björn verið sannfærður um að barnið væri að fæðast. „Maðurinn minn tók á móti stúlkunni þarna í vélinni og það gekk þannig séð eðlilega fyrir sig. Við lentum svo í Reykjavík nokkru síðar. Maðurinn minn hafði áður tekið á móti börnum okkar og var þetta í fjórða skiptið, við bjuggum afskekkt og ekki alltaf hægt að komast á spítala.“

Þegar stúlkan var fædd tilkynnti Björn flugturni í Reykjavík að farþegar væru nú einum fleiri um borð í vélinni og segir svo í frétt Morgunblaðsins: „Þeir svöruðu um hæl og sögðust óska viðkomandi til hamingju. ─ Ég bað flugturninn um að hringja í fæðingardeildina og fá sjúkrabíl, lækni og ljósmóður út á völl. Síðan var gefið heldur betur benzín á leiðinni, og lent í Reykjavík rétt um klukkan sex. Á vellinum beið sjúkrabíll, læknir og ljósmóðir og eftir nokkrar mínútur voru móðir og dóttir komnar á fæðingardeildina og öllum heilsaðist vel,“ er haft eftir Birni. Í frétt í Vísi 13. september segir að læknir og hjúkrunarkona hafi verið á flugvellinum þegar Björn lenti. Hafi þau þegar farið inn í flugvélina og veitt konunni fæðingarhjálp. „Að lítilli stundu liðinni, var konan tekin í sjúkrakörfu út úr flugvélinni, en komið var með reifabarnið á undan.“

Heypokarnir komu sér vel

Að vetrarlagi var Björn Pálsson beðinn að sækja fullorðinn mann austur á

Bakkafjörð. Á leiðinni þaðan var óskað eftir því að hann færi til Fáskrúðsfjarðar að

sækja veika konu. Þegar þangað var komið var „vandinn að koma fyrir öðrum

sjúklingi í þessari ltlu vél,“ sagði Björn síðar. „Nú var komið með heypoka, hvern á

fætur öðrum, og þeim hlaðið upp þangað til sjúklingarnir voru eiginlega komnir í

axlarhæð á mér í vélinni, til þess að geta legið heldur frjálsari afturí. Og til

Reykjavíkur komumst við.“

Fjöldi mynda prýðir bókina, sem er fáanleg í bókabúðum og eins hjá útgefanda í netfanginu: holar@holabok.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir