Blikastúlkur heimsækja Krókinn í Lengjubikarnum
Það er sturluð staðreynd að framundan er síðasta helgin í febrúar, tíminn flýgur og á morgun er fyrsti alvöru fótboltaleikurinn þetta árið á Sauðárkróksvelli. Stólastúlkur eru að undirbúa sig fyrir sumar í Bestu deildinni og taka þátt í Lengjubikarnum. Fyrstu gestir ársins á Sauðárkróksvöll eru Blikastúlkur og þar eru því engir aukvisar á ferð.
Leikurinn hefst kl. 14 og fyrr í vikunni hafði Feykir sagt frá veðurspá fyrir leikinn. Hún hefur að sjálfsögðu breyst og eru þar á ferð bæði góðar og vondar fréttir. Þannig er ólíklegt að það rigni eins og spáð var og hitastigin verða fleiri eða líklega átta stykki í plús, sem er gott, en hins vegar hefur bætt í vindinn og er reiknað með um 13 m/sek meðan á leik stendur. Engar gular eða appelsínugular viðvaranir eru í kortunum þannig að það ætti að vera óhætt að mæta á völlinn!
Donni þjálfari segir að því miður sé Monica Wilhelm, nýr bandarískur markvörður Stólastúlkna, ekki enn komin með leikheimild og verður því ekki með og þá eru nokkrar stúlkur að glíma við meiðsli og óvíst hvort þær nái leiknum. Flestar stelpurnar eru þó spilfærar og klárir í slaginn. „Það er mikilvægt að mæta og styðja stelpurnar okkar. Við erum að móta liðið okkar og spila þær saman fyrir sumarið. Stemningin og stuðningurinn er gríðarlega stórt atriði fyrir öll lið og þá sérstaklega i okkar litla samfélagi, svo við treystum á að við stöndum öll saman í þessu og flott að byrja á morgun á móti stórliði Blika,“ segir Donni.
Strákarnir spila fyrr um daginn
Leikur Stólastúlkna í Lengjubikarnum er reyndar ekki eini leikurinn á Króksteppinu á morgun því meistaraflokkur karla ætlar sömuleiðis að spretta úr spori. Þeir mæta 2. flokki KA og hefst leikurinn kl. 11. Þetta verður fyrsti leikur strákanna undir stjórn nýs þjálfara, Dominic Furness, og sömuleiðis verður frumsýndur nýr sænskur senter, Max Selden.
Donni segir að um sé að ræða tvítugan leikmann sem hafi komið til landsins með Örth tvíburunum sem eru einmitt einnig komnir á Krókinn á ný. „Þetta er flottur ungur strákur sem vildi prófa lífið á Króknum með tvíbbunum. Það verður spennandi að sjá hvort hann smelli ekki jafnvel inn í samfélagið og þeir bræður,“ segir Donni og bætir við að Max hafi verið hjá sér í Örgryte akademíunni í Svíþjóð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.