Bleiki mánuðurinn

Krabbameinsfélag Skagafjarðar tekur þátt í alþjóðlegu árveknisátaki um brjóstakrabbamein með því að lýsa Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og Sauðárkrókskirkju bleika. Í októbermánuði er vakin athygli á brjóstakrabbameini um allt land, frætt um sjúkdóminn og konur hvattar til að nýta sér boð Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku.

Þetta er hluti af alþjóðlegu árveknisátaki, upphaflega að frumkvæði Estée Lauder, en bleik slaufa er tákn átaksins. Ágóðinn af sölu bleiku slaufunnar verður notaður til að styðja við baráttu gegn krabbameinum hjá konum, en árlegur meðalfjöldi krabbameina hjá íslenskum konum er um 660, þar af greinast um 190 krabbamein í brjóstum. Í Skagafirði fæst bleika slaufan í Pósthúsinu og í Lyfju.

Ýmislegt annað verður gert til að vekja athygli á málstaðnum og meðal annars verður haldið uppboð á bleikaslaufan.is. Þar verður hægt að bjóða í ýmsa óvænta hluti og viðburði, á hverjum degi í 10 daga frá 2. til 11. október.

Bleiki dagurinn verður svo þann 11. október þar sem allir vinnustaðir eru hvattir til að hafa bleikt þema og starfsfólk að klæðast einhverju bleiku.

Fimmtudagskvöldið 17. október verður síðan bleikt kvöld um allt land og veitingastaðir víða um landið munu gefa 20% af verði matseðils til Krabbameinsfélagsins á svæðinu. Landsmenn eru því hvattir til að fara út að borða þetta kvöld og styrkja gott málefni.

Í Skagafirði mun Ólafshús hafa bleika helgi frá fimmtudeginum 17. október til sunnudagsins 20. október og ætlar að gefa 20% af verði matseðils til Krabbameinsfélags Skagafjarðar. Skagfirðingar eru því hvattir til að fara út að borða þessa helgi og styðja í leiðinni við gott málefni í heimabyggð.

María Reykdal

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir