Bleikar lýsingar 2012

Í ár eru Sauðárkrókskirkja, Silfrastaðakirkja og Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki lýst bleik á vegum Krabbameinsfélags Skagafjarðar, en í októbermánuði er vakin athygli á brjóstakrabbameini um allt land, frætt um sjúkdóminn og konur hvattar til að nýta sér boð Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins um röntgenmyndatöku.

Þetta er hluti af alþjóðlegu árveknisátaki, upphaflega að frumkvæði Estée Lauder, en bleik slaufa er tákn átaksins. Nú í október verður lögð áhersla á að selja bleikar slaufur og verður afraksturinn notaður til að styðja við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum, en árlegur meðalfjöldi krabbameina hjá íslenskum konum er um 660, þar af greinast um 190 krabbamein í brjóstum. Slaufurnar eru til sölu á mörg hundruð sölustöðum hjá samstarfsaðilum Krabbameinsfélags Íslands. Í Skagafirði fæst bleika slaufan á pósthúsinu og Lyfju.

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki í bleikri birti

Krabbameinsfélag Skagafjarðar hefur verið með margs konar starfsemi undanfarin ár, m.a. greitt leigu fyrir sjúklinga í íbúðum félagsins í Reykjavík og boðið upp á námskeið fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. Starfsmaður félagsins er með aðstöðu við Heilbrigðisstofnunina og eru viðtalstímar eftir samkomulagi. Minningarkort félagsins fást í Blóma- og gjafabúðinni og á Heilbrigðisstofnuninni.

/María Reykdal

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir